Ávarp á ráðstefnu um rafræna framtíð
Geir H. Haarde |
18. október 2001 |
Ávarp á ráðstefnu um rafræna stjórnsýslu (e-government)
Ágætu ráðstefnugestir,
Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til þess að ávarpa þessa ágætu samkomu hjá ykkur hér í dag, enda er efni ráðstefnunnar ákaflega ofarlega á baugi í rekstri ríkisins og sérstakt áhugaefni fyrir okkur sem höfum það að markmiði með pólitískri þátttöku að gera ríkisvaldið þægilegra og aðgengilegra gagnvart almenningi. Ég tel að rafræn stjórnsýsla feli einmitt í sér tækifæri til þess að bæta verulega samskipti ríkis við einstaklinga og fyrirtæki. Biðraðamenningin sem svo lengi hefur loðað við samskipti við hið opinbera, og valdið mörgum hugarangri, getur vikið úr vegi fyrir nýstárlegri og einfaldari samskiptaháttum.
Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að stefnumótun er varðar rafræn samskipti fyrirtækja og einstaklinga við stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins. Fjármálaráðuneytið hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi hvað þetta snertir og ýtt úr vör mörgum verkefnum sem miða að því að auðvelda samskipti við ríkisstofnanir með innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu. Þessi verkefni hafa ekki einasta í för með sér betri og skilvirkari samskipti heldur stuðla þau einnig að aukinni hagkvæmni í rekstri hins opinbera. Slíkt er ekki síður mikilvægt markmið.
Ríkið gegnir lykilhlutverki í þessu sambandi sökum þess að unnt er að nýta kraft stærðarinnar og virkja einstaklinga og atvinnulífið til þátttöku. Með fyrrgreind markmið að leiðarljósi hefur fjármálaráðuneytið sýnt mikið frumkvæði við innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu hér á landi og vil ég nefna nokkur dæmi:
1. | Þar ber fyrst að nefna að nýverið stóð ráðuneytið fyrir útboði og gerð samnings um ný fjárhagskerfi fyrir ríkið og stofnanir þess. Samningurinn sem gerður var við Skýrr hf. um kaup á Oracle fjárhags- og mannauðskerfi er væntanlega stærsti samningur um kaup á hugbúnaði sem gerður hefur verið af íslenskum aðilum. Með kaupum á nýju kerfi var mótuð sameiginleg stefna af hálfu ríkis og ríkisstofnana í málefnum er varða fjárhagskerfi, fjárhagsupplýsingar, uppgjör og upplýsingagjöf. Stefnumótun sem þessi hefur afgerandi áhrif á innri rekstur ríkisins og auðveldar alla stjórnun, bæði innan stofnana ríkisins sem og þeirra ráðuneyta sem stofnanirnar heyra undir. Sú ákvörðun að kaupa eitt kerfi fyrir allar ríkisstofnanir tryggir að fullt samræmi er milli framsetningu fjárhagsupplýsinga og auðveldar það allan samanburð milli ólíkra stofnana. Miklar væntingar eru gerðar til þessa samnings. |
2. | Opinber innkaup er annar vettvangur þar sem upplýsingatæknin nýtist vel. Að undanförnu hefur fjármálaráðuneytið mótað stefnu varðandi opinber innkaup sem stuðlar að rafrænum innkaupum ríkisstofnana. Innkaup eru stór þáttur í rekstri ríkisins. Áætlað er að 25-30% af öllum útgjöldum ríkisins falli undir opinber innkaup, eða 60-70 milljarðar króna. Hagkvæmari innkaup og innkaupaaðferðir spara ríkinu því umtalsverða fjármuni. Með slíka hagræðingu að markmiði bauð ríkið út greiðslukortaþjónustu fyrir ríki og ríkisstofnanir. Tilgangur með sérstökum innkaupakortum fyrir ríkið er að einfalda greiðsluferli reikninga, minnka umsýslukostnað við smáinnkaup og auka sýn stjórnenda yfir innkaup. Þá mun innkaupakortið styrkja rammasamningskerfi Ríkiskaupa og þannig stuðla að hagkvæmari innkaupum ríkisins. Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu þessa kerfis í samvinnu við EUROPAY á Íslandi. |
3. | Unnið er að því að koma á fót rafrænu markaðstorgi fyrir rammasamninga Ríkiskaupa. Rammasamningskerfi Ríkiskaupa veltir í dag yfir 1 milljarði króna. Þegar markaðstorgið verður komið í notkun munu ríkisstofnanir geta gert innkaup í gegnum torgið í öllum helstu vöruflokkum. Mikilvægt er að þarna hefur verið mótuð sú stefna að vinna með einkaaðilum við uppbyggingu á torginu og eru fyrirtæki á almennum markaði þannig fengin til að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu og rekstur. Ríkið getur því, í krafti magninnkaupa, stuðlað að uppbyggingu rafrænna viðskipta á almennum markaði í stað þess að byggja upp sértæka þjónustu sem aðeins nýtist ríkisaðilum. Hagræðing sem hlýst af notkun rafrænna innkaupa með þessum hætti nýtist því bæði ríkinu og fyrirtækjum á almennum markaði. |
4. | Eins og kunnugt er hefur mikið starf verið unnið í samráði við ríkisskattstjóra og Tollstjórann í Reykjavík við eflingu og þróun rafrænnar miðlunar. Einstaklingum og fyrirtækjum hefur verið boðið að fylla út hið árlega skattframtal í gegnum vefinn og eru flestir sammála um að vefur ríkisskattstjóra sé lifandi dæmi um kosti rafrænnar stjórnsýslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ekki síst stjórnsýsluna sjálfa. Yfir 130.000 einstaklingar skiluðu skattframtölum nú í ár með rafrænum hætti eða 61% skattgreiðenda. Þar af skiluðu 75.000 í gegnum netið sem er 80% aukning frá fyrra ári, og reikna ég með að flestir hér inni hafi sjálfir kynnst því hversu mikla yfirburði þetta hefur yfir gamla kerfið. Fullyrða má að þetta hefur skapað mikið hagræði í skattkerfinu. Auk vefframtalsins var á þessu ári riðið á vaðið með áritun fjárhagsupplýsinga á framtal sem eykur enn hagræðið fyrir skattgreiðendur og áfram verður unnið að forskráningu annarra upplýsinga. Stefnt er að því að stór hluti þjóðarinnar ljúki framtalsgerð sinni með staðfestingu upplýsinga sem skattyfirvöld hafa fyrirfram fært á framtalið. Hvað tollamálin varðar er í tollalögum gert ráð fyrir því að allir þeir aðilar sem stunda inn- eða útflutning í atvinnuskyni framkvæmi tollafgreiðslu með skjalasendingum milli tölva, svokallaðri SMT-tollafgreiðslu. Þá hafa verið skoðaðir möguleikar á að taka upp tollafgreiðslu í gegnum Internetið. |
5. | Önnur atriði sem nefna má og unnið er að innan ráðuneytisins eru verkefni um dreifilyklaskipulag og verðlagningu opinberra upplýsinga, sem eru lykilatriði í því að koma á almennri rafrænni stjórnsýslu. |
Eins og sést af þeim dæmum sem ég hef hér nefnt hefur ríkið lagt mikla áherslu á að nýta sér upplýsingatæknina til þess að gera stjórnsýsluna skilvirkari og þægilegri. Það er hlutverk ykkar sem hér eruð, og okkar sem förum með stjórn ríkisins, að tryggja að sú þróun sem hafin er verði heillavænleg og skynsamlegt. Ég tel mjög mikilvægt að haldið verði áfram á sömu braut og fagna því frumkvæði sem hér er tekið með ráðstefnu af þessu tagi. Ég óska ykkur góðs gengis í störfum ykkar hér í dag.