Opinberar heimsóknir Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Japans, Kína og Rússlands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 094
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, heldur ásamt eiginkonu sinni, Sigurjónu Sigurðardóttur, í opinberar heimsóknir til Japans, Kína og Rússlands 20. október til 3. nóvember næstkomandi í boði þarlendra stjórnvalda.
Utanríkisráðherra mun eiga viðræður við starfsbræður sína, frú Makiko Tanaka, utanríkisráðherra Japans, Tang Jiaxuan, utanríkisráðherra Kína og Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, og aðra ráðamenn í ríkjunum þremur um samskipti Íslands við þessi ríki og gagnkvæm hagsmunamál auk margvíslegra alþjóðamála. Í Kína verður þess meðal annars minnst að á þessu ári eru liðin 30 ár frá því Ísland og Kína tóku upp formleg stjórnmálasamskipti.
Næstkomandi fimmtudag, 25. október 2001, mun utanríkisráðherra opna formlega nýtt sendiráð Íslands í Tókýó og taka þátt í sérstakri Íslandskynningu í Japan sem verður haldin af því tilefni. Þar kynna um 40 íslensk fyrirtæki starfsemi sína og haldnir verða fyrirlestrar um utanríkisviðskipti, ferðaþjónustu, fjármálamarkað og fjárfestingartækifæri á Íslandi. Ennfremur verður kynning á íslenskum sjávarútvegi, hugbúnaðar-og hátækniiðnaði og framleiðslu á margvíslegum tæknibúnaði fyrir sjávarútveg.
Utanríkisráðherra mun einnig heimsækja Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó, japanska þingið og eiga viðræður við félaga í vináttufélagi Japans og Íslands á japanska þinginu. Hann heimsækir einnig Saitama fylki í grennd við Tókýó í boði fylkisstjórans.
Íslensk menning verður í sviðsljósinu í Japan á meðan á heimsókn utanríkisráðherrahjóna stendur. Kammersveit Reykjavíkur og Blásarakvintett Reykjavíkur efna til tónleika, sýndar verða íslenskar kvikmyndir, flokkar júdó-og karatemanna frá báðum ríkjum sýna listir sínar og efnt verður til samsýningar íslenskra og japanskra myndlistarmanna. Utanríkisráðherra verður einnig viðstaddur undirritun samstarfssamnings á milli Viðskiptaháskólans á Bifröst og Otaru viðskiptaháskólans.
Í Kína mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, auk viðræðna við Tang Jiaxuan, utanríkisráðherra Kína, eiga fundi með aðstoðarforsætisráðherra Kína og ráðherra utanríkisviðskipta.
Þá mun utanríkisráðherra meðal annars flytja ávarp á íslenskri matvælakynningu í Beijing og verða viðstaddur opnun sýningar á ljósmyndum frá Íslandi eftir Pál Stefánsson. Hann mun ennfremur kynna sér jarðhitasamstarf íslenskra og kínverskra fyrirtækja og heimsækja borgarhluta í Peking þar sem ráðgert er að nota jarðhita til upphitunar með íslenskri tækniþekkingu.
Í Peking munu utanríkisráðherrahjón verða viðstödd tónleika Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, sópransöngkonu, við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, píanóleikara og taka þátt í opnun íslenskrar kvikmyndaviku. Þar verður meðal annars sýnd kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Englar alheimsins, sem byggð er á sögu Einar Más Guðmundssonar, rithöfundar, sem brátt kemur út í kínverskri þýðingu.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, mun einnig heimsækja sjávarútvegssýninguna "China Fisheries and Seafood Expo 2001" í borginni Qingdao og kynna sér starfsemi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í Kína og halda erindi um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í Qingdao mun utanríkisráðherra afhjúpa styttu eftir Gerði Gunnarsdóttur, myndhöggvara, sem komið hefur verið fyrir á torgi í hjarta borgarinnar.
Í Rússlandi mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, auk viðræðna við Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, eiga fundi með Roald Piskopel, aðstoðarefnahags-og viðskiptaráðherra, Vitaly Nazdratenko, formanni sjávarútvegsnefndar Rússlands og Roman Abramovich, fylkisstjóra Chukotka héraðs og hugsanlega einnig Mikhail Kasyanov, forsætisráðherra og Sergei Ivanov, varnarmálaráðherra.
Utanríkisráðherra mun ennfremur halda erindi um utanríkisstefnu Íslands á vegum alþjóðamálastofnunar rússneska utanríkisráðuneytisins.
Nánari upplýsingar um dagskrá opinberra heimsókna utanríkisráðherrahjóna til Japans, Kína og Rússlands eru hjálagðar til fróðleiks.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. október 2001.