Hoppa yfir valmynd
20. október 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynningarfundur reikningsskila- og upplýsinganefndar

Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, undirritar nýjar reglur um reikningsskil sveitarfélagaÁ kynningarfundi reikningsskila- og upplýsinganefndar á Hótel Sögu, þann 11. október sl., tók Páll Pétursson félagsmálaráðherra í notkun nýja vefsíðu nefndarinnar. Jafnframt staðfesti hann með undirritun sinni nýjar reglur um reikningsskil sveitarfélaga sem reikningsskila- og upplýsinganefndin hefur samið að undanförnu og fjallar um framsetningu ársreikninga þeirra og meðferð ýmissa þátta í bókhaldi og reikningsskilum þeirra.

Við þetta tækifæri sagði félagsmálaráðherra að hin nýja vefsíða yrði sveitarfélögunum í framtíðinni án efa til mikils hægðarauka við skipulag og færslu bókhalds þeirra og framsetningu ársreikninga og fjárhagsáætlana.

Markmið með setningu reglnanna og opnun hinnar nýju vefsíðu er að ná fram frekari samræmingu í færslu bókhalds sveitarfélaga og framsetningu ársreikninga og annarra fjárhagslegra upplýsinga þeirra svo samanburður milli þeirra verði betri og markvissari.

Á kynningarfundinum fjallaði Garðar Jónsson, formaður reikningsskila- og upplýsinganefndar og starfmaður félagsmálaráðuneytisins, um ákvæði reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000. Halldór Hróarr Sigurðsson, endurskoðandi og ráðgjafi nefndarinnar, flutti erindi um framsetningu ársreikninga og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, flutti erindi um flokkun og greiningu í bókhaldi sveitarfélaga. Lárus Finnbogason endurskoðandi og fulltrúi í reikningsskila- og upplýsinganefndinni, gerði fundarmönnum grein fyrir frumvarpi til laga um afnám verðleiðréttinga í almennum reikningsskilum og hvaða áhrif það hefur haft á reglur nefndarinnar.

Reglurnar hafa verið birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum en áður hefur verið birt auglýsing nr. 414/2001 um flokkun og greiningu í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

Á vefsíðu reikningsskila- og upplýsinganefndar, undir heimasíðu félagsmálaráðuneytisins, er að finna frekari upplýsingar um hinar nýju reglur ásamt öðrum reglum og leiðbeiningum sem til eru um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum