Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með utanríkisráðherra Japans.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 096
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með frú Makiko Tanaka, utanríkisráðherra Japans, á fyrsta degi opinberrar heimsóknar sinnar til Japans.
Samskipti Íslands og Japans voru efst á baugi í viðræðum ráðherranna, þar á meðal formleg opnun sendiráðs Íslands í Japan næstkomandi fimmtudag, 25. október. Ráðherrarnir ræddu jafnframt um leiðir til að efla viðskipti ríkjanna og möguleika á frekari tollaívilnunum í því skyni. Utanríkisráðherrarnir ræddu um hvalveiðimál og gagnkvæman stuðning og samstarf þjóðanna innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þá fjölluðu þeir um baráttuna gegn hryðjuverkum og voru sammála um mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu í því efni.
Heimsókn utanríkisráðherra til Japans hófst með opnun Íslenskra viðskiptadaga að viðstöddu fjölmenni. Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráð Íslands stóðu að undirbúningi Íslenskra viðskiptadaga ásamt japönskum samstarfsaðilum. Þar verður meðal annars efnt til þriggja málþinga þar sem fjallað verður um hátækni, ferðaþjónustu og sjávarútveg á Íslandi.
Eftirfarandi íslensk fyrirtæki taka þátt í Íslenskum viðskiptadögum í Japan: Allrahanda, DNA veflausnir, Eimskip, Ferðaskrifstofa Íslands, Iceland Spring, Flugleiðir, SH, Fjárfestingarstofan, Íslandsbanki, Íslenskur æðardúnn, Landmat, M&B Trading, Marel, Pegasus og Panartica, Samskip, Samvinnuferðir Landsýn, SÍF, Skipatækni, Sæbýli, Sæplast, Víkingaeyjan, XCO og Zoom.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. október 2001.