Opnun sendiráðs Íslands í Tókýó
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 099
Íslenskt sendiráð í Japan var í dag opnað af Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, við hátíðlega athöfn er fram fór við sendiráðsbygginguna í Tókýó. Á sjötta hundrað gestir voru viðstaddir athöfnina. Á meðal þeirra voru prins Takamado-no-miya, ásamt eiginkonu, auk háttsettra embættismanna og fulltrúa úr japönsku viðskiptalífi. Jafnframt voru á meðal boðsgesta Íslendingar búsettir í Japan og fulltrúar um þrjátíu íslenskra fyrirtækja og viðskiptavinir þeirra.
Kammersveit Reykjavíkur og Blásarakvintett héldu tónleika í tengslum við opnunina og íslenskir júdó-og karatemenn sýndu listir sínar. Jafnframt taka sjö íslenskir myndlistarmenn taka þátt í samsýningu með japönskum myndlistarmönnum og hópur nemenda úr Verslunarskólanum tekur þátt í málþingi í Tókýó með japönskum nemendum.
Fyrr um daginn flutti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarp á viðskiptakynningu sem fyrirtækið Marel efndi til í húsakynnum sendiráðsins fyrir fulltrúa frá yfir tuttugu japönskum fyrirtækjum.
Skömmu fyrir opnunarhátíðina afhenti utanríkisráðherra þremur japönskum Íslandsvinum Fálkaorðu hins íslenska riddarakross fyrir störf þeirra í þágu Íslands. Þau eru Junichi Watanabe, rithöfundur, fyrir störf í þágu japansk-íslenska vináttufélagsins, Tatsuro Asai, fyrir rannsóknir og kynningu á jarðfræði Íslands og þingmaðurinn Shinako Tsuchiya fyrir störf í þágu menningar-og stjórnmálasamskipta.
Íslenskir starfsmenn sendiráðsins eru Ingimundur Sigfússon, sendiherra, Ragnar Baldursson, sendiráðunautur og Gunnlaug Guðmundsdóttir, ritari. Jafnframt eru tveir staðarráðnir starfsmenn við sendiráðið.
Húsnæði sendiráðsins er að:
4-18-26 Takanawa, Minato ku.
Tokyo 108-0074
Japan
Sími: (00 81 3) 3447 1944
Fax: (00 81 3) 3447 1945
Netfang: [email protected]
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. október 2001.