20. - 26. október 2001
Fréttapistill vikunnar
20. - 26. október 2001
Formleg opnun líknardeildar við öldrunarsvið LSH á Landakoti
Í dag var formlega tekin í notkun líknardeild við öldrunarsvið Landspítala - Háskólasjúkrahúss. Deildin er á fimmtu hæð í austurálmu Landakots þar sem áður var gjörgæsludeild Landakotsspítala. Níu einbýlisherbergi eru á deildinni. Deildin er ætluð öldruðu fólki með ólæknandi sjúkdóm á lokastigi sem er of veikt til að dvelja í heimahúsi. Veitt er sérhæfð einkennameðferð og öll umönnun tekur mið af andlegum, líkamlegum og félagslegum þörfum. Markmiðið er að stuðla að sem mestum lífsgæðum sjúklingsins og fjölskyldu hans. Veitt var fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna þeirra breytinga sem gera þurfi á húsnæði deildarinnar. Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauðakross Íslands gaf búnað á allar stofur, þar með talin sjúkrarúm af vönduðustu gerð. Styrktarsjóður Landakotsspítala gaf mest af búnaði í setustofu, borðstofu og á ganga. Opnun líknardeildar er liður í stefnumótun öldrunarsviðs LSH sem miðar að því að skilgreina og sérhæfa ýmsar einingar öldrunarþjónustunnar þannig að þörfum aldraðra sem leita til sjúkrahússins sé sem best mætt.
LSH - rekstrargjöld sjúkrahússins 399 m.kr. umfram fjárheimildir - óhagstæð verðlags- og gengisþróun sögð meginástæðan
Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir fyrstu níu mánuði ársins sýnir 399 m.kr. umfram fjárheimildir sem eru um 2,6% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Þar til viðbótar er kostnaður vegna S-merktra lyfja tæpar 99 m.kr. umfram fjárheimildir. Launagjöld eru sem fyrr stærsti kostnaðarliðurinn og nema þau 69% af heildargjöldum sjúkrahússins og eru 1,9% hærri en áætlað var fyrir tímabilið. Þetta kemur fram í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússin fyrir janúar - september 2001. Sérstaklega hefur verið farið yfir ástæður þess að rekstrargjöld eru svo langt umfram áætlun og eru helstu skýringar taldar mikil hækkun á ýmsum vísitölum. Útbúin var sérstök neysluverðsvísitala fyrir sjúkrahúsið og reyndist hún hafa hækkað um 11,0% frá október 2000. Rekstraráætlun ársins gerði hins vegar ráð fyrir 4% hækkun á einu ári í samræmi við fjárlög. ,,Því er óhagstæð verðlags- og gengisþróun aðalástæðan fyrir því að rekstargjöld spítalans eru umfram áætlun og getur skýrt allt að 250 m.kr. af halla fyrstu níu mánaða ársins. Eðlilegt er að fjármálayfirvöld leiðrétti þennan mismun til að koma í veg fyrir að þjónusta við sjúklinga skerðist, því spítalinn hefur engin tök á að ráða við verðlags- og gengisþróun" segir m.a. í greinargerð framkvæmdastjóra.
MEIRA...
Samkomulag um byggingu íbúðarálmu fyrir 25 - 30 vistmenn við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði
Stjórn Náttúrulækningafélags Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og bæjarstjórn Hveragerðis hafa gert með sér samkomulag um byggingu nýs baðhúss og íbúðarálmu fyrir 25 - 30 vistmenn við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Samkvæmt samkomulaginu mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra beita sér fyrir því að NLFÍ fái 65 m.kr. framlag úr ríkissjóði vegna byggingar íbúðaálmunnar. Þá er einnig gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður aldraðra veiti 21 m.kr. til verksins og að Hveragerðisbær leggi til 16 m.kr. Ætlunin er að fólk sem er að ná sér eftir veikindi geti dvalið um tíma í íbúðunum og notið þjónustu NLFÍ meðan á dvölinni stendur. Heilsustofnun NLFÍ er sjálfseignarstofnun. Hlutverk hennar er tvíþætt. Annars vegar er þar veitt almenn og sérhæfð endurhæfingarþjónusta en hins vegar getur fólk leitað þangað sér til hvíldar og hressingar.
Nýjar reglugerðir og auglýsing um breytingu á gjaldskrá fyrir tannlækningar
Tekið hefur gildi reglugerð nr. 770/2001 um breytingu (1.) á reglugerð um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við almennar tannlækningar nr. 28/1999. Einnig hefur tekið gildi reglugerð nr. 766/2001 um breytingu (1) á reglugerð nr. 462/2000, um markaðsleyfi sérlyfja, merkingar þeirra og fylgiseðla. Með auglýsingu nr. 763/2001 sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur staðfest, er gerð breyting á gjaldskrá nr. 42/1999 með síðari breytingum, fyrir tannlækningar veittar sjúklingum sem tryggðir eru samkvæmt almannatryggingalögum. Með auglýsingunni er jafnframt felld úr gildi gjaldskrá fyrir skólatannlækningar nr. 166/1992, með síðari breytingum.
26. október, 2001