Verðtilboð í 25% hlutafjár Landssímans
Reykjavík,
26. október 2001
Fréttatilkynning
Í dag rann út frestur til að skila inn óbindandi verðtilboðum í 25% hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Um er að ræða annan áfanga í einkavæðingu félagsins þar sem markmiðið er að finna kjölfestufjárfesti sem styrki fyrirtækið, auki verðmæti þess og efli íslenskan fjarskiptamarkað. Væntanlegum kjölfestufjárfesti mun standa til boða að kaupa 10% hlutafjár í Landssímanum til viðbótar á tímabilinu 1. nóvember 2002 til 1. febrúar 2003 á sama verði og felst í lokatilboði hans.Söluferli í þessum áfanga einkavæðingar Landssíma Íslands hófst sl. sumar þegar auglýst var eftir áhugasömum fjárfestum. Áhugasamir aðilar skiluðu síðan inn yfirlýsingu þar að lútandi 24. september sl. Alls bárust 17 slíkar yfirlýsingar. Þeir sem uppfylltu skilyrði til áframhaldandi þátttöku gafst kostur á að fá sendar nánari upplýsingar í sérstakri skýrslu sem PricewaterhouseCoopers útbjó í samvinnu við Landssímann og framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Á grundvelli þeirra upplýsinga skyldu þeir síðan skila inn óbindandi verðtilboðum. Tilboð hafa nú borist frá 7 bjóðendum. Á meðal þeirra eru sum af öflugustu síma- og fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu.
Á grundvelli þeirra óbindandi tilboða sem nú hafa borist gefst 2-4 tilboðsgjöfum kostur á að fá frekari upplýsingar um Landssíma Íslands hf. og starfsemi hans í gegnum kynningar, heimsóknir og kostgæfnisathuganir. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun taka afstöðu til þeirra óbindandi tilboða sem nú hafa borist á næstu dögum.
Bindandi lokatilboð eiga að berast í lok nóvember nk. Að lokinni skoðun á þeim er síðan ráðgert að ganga til samninga við einn aðila og stefnt að frágangi hans fyrir lok ársins.
Það er afar mikilvægt að traust og trúnaður ríki í samskiptum bjóðenda og seljanda hvað varðar meðferð upplýsinga. Mörg af þeim fyrirtækjum sem taka þátt í söluferlinu eru skráð á verðbréfamarkaði og hafa sem slík upplýsingaskyldu samkvæmt reglum sem gilda um kauphallir. Því hefur framkvæmdanefnd um einkavæðingu samið við væntanlega bjóðendur, að höfðu samráði við PricewaterhouseCoopers, að ekki verði veittar nánari upplýsingar um þátttakendur og framgang söluferilsins þar til honum er lokið. Þannig er leitast við að tryggja sem bestan árangur ferilsins til hagsbóta fyrir alla sem að honum koma.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu