Hoppa yfir valmynd
28. október 2001 Utanríkisráðuneytið

Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Kína

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 100


Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, og eiginkonu hans Sigurjónu Sigurðardóttur, til Kína hófst í gær, laugardaginn 27. október.

Heimsóknin hófst með formlegri opnun íslenskrar matvælakynningar, "Icelandic Food Festival", sem fram fer á SAS Radisson hótelinu í Peking. Matvælakynningin er samstarfsverkefni Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, Útflutningsráðs Íslands og kínversk-íslenska verslunarráðsins. Tíu íslensk fyrirtæki taka þátt í kynningunni; Sameinaðir útflytjendur, E. Ólafsson, Jón Ásbjörnsson hf., Sæbýli, Northice, XCO, Sláturfélag Suðurlands, Ora, Fiskeldi Eyjafjarðar og Iceland Spring.

Í dag heimsóttu utanríkisráðherrahjónin Kínamúrinn og kynntu sér starfsemi kínverskra samstarfsaðila íslenska orkufyrirtækisins Enex hf. Þá var utanríkisráðherra viðstaddur opnun íslenskrar kvikmyndahátíðar í Peking en þar verða á næstu dögum sýndar sjö íslenskar kvikmyndir.

Á morgun, mánudaginn 29. október, mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, eiga fundi með Zhu Rongji, forsætisráðherra Kína, Tang Jiaxuan, utanríkisráðherra Kína og frú Wu Yi, formanni kínverska ríkisráðsins, en hún kom í opinbera heimsókn til Íslands í september á síðasta ári.

Á þriðjudaginn, 30. október, fer Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ásamt fylgdarliði til borgarinnar Quingdao. Þar mun utanríkisráðherra ávarpa ráðstefnu um sjávarútvegsmál og verða viðstaddur formlega opnun alþjóðlegrar sjávarútvegssýningar þar sem átta íslensk fyrirtæki eru á meðal þátttakenda.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. október 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta