Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með forsætisráðherra Kína
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 102
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag, á þriðja degi opinberrar heimsóknar sinnar til Kína fundi með Zhu Rongji, forsætisráðherra Kína, Tang Jiaxuan, utanríkisráðherra og frú Wu Yi, fulltrúa í ríkisráði Kína.
Utanríkisráðherra Íslands og forsætisráðherra Kína voru sammála um mikilvægi þess að þjóðir heims stæðu saman í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og um lykilhlutverk Sameinuðu þjóðanna í þeirri baráttu og við uppbyggingar-og endurreisnarstarf í Afghanistan. Utanríkisráðherra fjallaði um áherslur Íslands varðandi umbætur á starfsemi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og aðild fastafulltrúa Íslands að því starfi. Forsætisráðherra Kína sagði að þótt Kínverjar hefðu komist vel frá efnahagskreppunni í Asíu árið 1997 væri hagkerfi Kína nú opnara en áður og því viðkvæmara fyrir efnahagssveiflum í öðrum heimshlutum. Forsætisráðherra Kína vonaðist jafnframt til þess að neikvæð áhrif hryðjuverkanna í Bandaríkjunum yrðu sem minnst.
Fundur Halldórs Ásgrímssonar með starfsbróður sínum Tang Jiaxuan stóð í rúmlega níutíu mínútur. Auk efnahags-og viðskiptasamvinnu ræddu ráðherrarnir mannréttindamál, öryggissamstarf og málefni Tævan. Efling stofnana Sameinuðu þjóðanna var báðum ofarlega í huga og greindi utanríkisráðherra frá fyrirhuguðu framboði af Íslands hálfu til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 2009-2010 og til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar árið 2003-2004. Ennfremur áréttaði utanríkisráðherra áhyggjur Íslendinga af röskun jafnvægis í lífríki sjávar sem orsakast af vexti hvalastofna. Utanríkisráðherra Kína lofaði þróttmikið starf af hálfu Íslands á alþjóðavettvangi, sem eftir væri tekið.
Á fundi utanríkisráðherra með frú Wu Yi, fulltrúa í kínverska ríkisráðinu, voru ört vaxandi samskipti Íslands og Kína efst á baugi og lýstu þau gagnkvæmum áhuga á því að efla viðskipta-og efnahagssamstarf þjóðanna enn frekar. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, lýsti yfir áhuga Íslendinga á því að hraða tollalækkunum á sjávarafurðum í tengslum við inngöngu Kínverja í alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Slíkt gæti orðið grundvöllur að auknum útflutningi sjávarafurða frá Íslandi til Kína. Enn fremur kom fram áhugi á því efla samstarf þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar en frú Wu Yi kynnti sér þau mál sérstaklega í opinberri heimsókn sinni til Íslands í september í fyrra.
Á morgun, þriðjudaginn 30. október, heldur utanríkisráðherra til borgarinnar Qingdao. Þar mun hann ávarpa ráðstefnu um sjávarútvegsmál, "Forum on Sustainable Development of Fisheries" og heimsækja alþjóðlegu sjávarútvegssýninguna "China Fisheries and Seafood Expo 2001" og kynna sér þátttöku íslenskra fyrirtækja á sýningunni.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. október 2001.