Hoppa yfir valmynd
29. október 2001 Innviðaráðuneytið

Vefstjórn stjórnarráðsvefs

Í ágústmánuði 2000 var ráðið í nýtt starf vefstjóra stjórnarráðsvefsins. Vefstjóra er m.a. ætlað að hafa umsjón með þróun stjórnarráðsvefsins í samráði við ritstjórn sem þá var og síðar vefstjórn, að fylgjast með og innleiða nýjungar í vefmálum og að leiðbeina einstökum ráðuneytum og starfsmönnum þeirra varðandi vefi ráðuneytanna. Vefstjóri nú er Sigurður Davíðsson.

Í lok októbermánaðar 2000 lagði forsætisráðherra fram til kynningar fyrir ríkisstjórn minnisblað um rafræna stjórnsýslu. Í minnisblaðinu er m.a. fjallað um vefsíður stjórnarráðsins og greint frá því að ákveðið hafi verið að setja á stofn sérstaka vefstjórn, er leysti af hólmi samráðshóp stjórnarráðsins um málefni stjórnarráðsvefsins svo og ritstjórn. Jafnframt er í minnisblaðinu greint frá því að forsætisráðuneytið hafi ráðið sérstakan starfsmann til að annast málefni stjórnarráðsvefsins og að honum sé ætlað að leiða samstarf ráðuneytanna á þessu sviði og aðstoða eftir mætti þau ráðuneyti, sem styttra eru á veg komin, við að betrumbæta sínar vefsíður.

Samkvæmt minnisblaðinu er gert ráð fyrir að ráðuneytin hafi áfram með sér nána samvinnu um gerð og þróun stjórnarráðsvefsins og að sérstök vefstjórn, þar sem öllum ráðuneytum gefst kostur á að eiga fulltrúa, sinni málefnum tengdum stjórnarráðsvefnum.

Með vefstjórn starfa einnig sérstakir ráðgjafar; Guðbjörg Sigurðardóttir, formaður Verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og Jóhann Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti.

Hlutverk vefstjórnar er m.a. að:

  • móta ákveðnar verklagsreglur um umgengni við vefinn
  • taka á ágreiningsmálum um hvaðeina sem upp kann að koma varðandi stjórnarráðsvefinn
  • bera ábyrgð á stefnumótun varðandi vefsíðugerð einstakra ráðuneyta
  • skilgreina almenn sameiginleg markmið ráðuneytanna er varða stjórnarráðsvefinn
  • bæta nýtingu upplýsingatækninnar í samskiptum stjórnvalda við þá sem eftir þjónustu þeirra leita.

Markmiðið er að vefur stjórnarráðsins gegni vaxandi hlutverki í samskiptum stjórnavalda við almenning, fyrirtæki og stofnanir, og að hann verði gagnvirkur, þ.e. að þangað sé hægt að sækja ýmisskonar þjónustu og sinna erindrekstri. Vefurinn verður eftir sem áður staðlaður að vissu marki - eða að því marki sem það er til hagræðis fyrir notendur vefsins -, en ráðuneytin munu áfram hafa all frjálsar hendur um efnisval og framsetningu efnis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta