Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með borgarstjóra Qingdao
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 103
Halldór Ásgrímson, utanríkisráðherra og eiginkona hans Sigurjóna Sigurðardóttir heimsóttu í dag hafnarborgina Qingdao á fjórða degi opinberrar heimsóknar þeirra í Kína. Þar var utanríkisráðherra viðstaddur opnun alþjóðlegu sjávarútvegssýningarinnar "China Fisheries and Seafood Expo", þar sem sjö íslensk fyrirtæki eru á meðal þátttakenda. Einnig hélt utanríkisráðherra ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra nýtingu auðæfa hafsins, "Forum on Sustainable Development of Fisheries".
Utanríkisráðherra átti í dag fund með borgarstjóra Qingdao og þáði hádegisverðarboð hans. Síðdegis í dag afhjúpaði Halldór Ásgrímsson styttu myndlistarmannsins Gerðar Gunnarsdóttur, "Fiðluleikarinn", sem sett hefur verið upp á Tónlistartorgi hafnarborgarinnar, að viðstöddu fjölmenni. Tónlistartorgið er í grennd við svæði þar sem ráðgert er að halda siglingakeppni Ólympíuleikanna árið 2008.
Á morgun halda utanríkisráðherrahjónin í opinbera heimsókn til Rússlands þar sem utanríkisráðherra mun meðal annars eiga fundi með starfsbróður sínum, Igor Ivanov, og öðrum ráðamönnum Rússlands.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. október 2001.