Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Rússlands

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 105


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, lagði í dag blómsveig að gröf hins óþekkta hermanns í Alexandersgarðinum við Kreml, á fyrsta degi opinberrar heimsóknar sinnar til Rússlands.

Utanríkisráðherra átti síðan fund með Alexander Borisov, staðgengli efnahags- og viðskiptaráðherra Rússlands. Á fundinum voru rædd ýmis mikilvæg tvíhliða viðskiptamál, auk málefna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og fyrirhugaðrar aðildar Rússlands að henni. Ákveðið var að hefja tvíhliða viðræður milli Íslands og Rússlands í tengslum við væntanlega aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að tollalækkanir á sjávarafurðum yrðu forgangsatriði af hálfu Íslands í því sambandi. Þá var rætt um fyrirhugaðan samning Íslands og Rússlands um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

Af hálfu Rússlands kom fram áhugi á framkvæmd EES-samnings og óskuðu þeir eftir nánari upplýsingum af Íslands hálfu um framkvæmd samningsins. Áhugi Rússlands tengist undirbúningi viðræðna þeirra við Evrópusambandið um efnahagssamvinnu. Utanríkisráðherra tók vel í málaleitan Rússlands og er frekara samráð ríkjanna um reynslu Íslands af framkvæmd EES-samningsins fyrirhugað á næstunni.

Á morgun mun ráðherra eiga viðræður við Alexei Kudrin, varaforsætisráðherra og fjármálaráðherra Rússlands. Þá mun hann eiga fund með Dmitry Rogozin, formanni utanríkismálanefndar rússneska þingsins, Evgeny Nazdratenko, formanni sjávarútvegsráðsins og Igor Yusufov, orkumálaráðherra. Þá flytur ráðherra ræðu um utanríkisstefnu Íslands í akademíu utanríkisráðuneytis Rússlands.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. nóvember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta