Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með varaforsætisráðherra Rússlands

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 106


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Alexei Kudrin, varaforsætisráðherra og fjármálaráðherra Rússlands. Ráðherrarnir ræddu tvíhliða viðskiptamál, einkum möguleika á að auka viðskipti landanna. Einnig ræddu þeir samvinnu ríkja um hvernig uppræta megi alþjóðleg hryðjuverkasamtök og leiðir til að koma í veg fyrir fjármögnun slíkra samtaka. Utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægt hlutverk Rússlands í þeirri baráttu og því að tryggja órofa samstöðu ríkja heims um framhald aðgerða til að uppræta alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.

Ráðherra átti einnig fund með Igor Yusufov, orkumálaráðherra Rússlands, þar sem ræddir voru möguleikar á aukinni samvinnu ríkjanna á sviði orkumála. Einkum var lögð áhersla á samvinnu á sviði jarðvarmanýtingar. Í þeim tilgangi ákváðu ráðherrarnir að koma á fót sameiginlegum vinnuhópi, er móta ætti tillögur um aukna samvinnu í orkumálum.

Þá átti ráðherra fund með Dmitry Rogozin, formanni utanríkisnefndar rússneska þingsins. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að efla viðskipti milli landanna og í því samhengi væri brýnt að tvísköttunarsamningur ríkjanna, sem þegar hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, fengi sem fyrst afgreiðslu í rússneska þinginu. Einnig var rætt um samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, samstarfið við Evrópusambandið og ástand mála í Afganistan.

Ennfremur átti ráðherra hádegisverðarfund með Evgeny Nazdratenko, formanni sjávarútvegsráðs Rússlands, um möguleika á frekari samstarfsverkefnum á sviði sjávarútvegsmála.

Ráðherra flutti einnig erindi um utanríkisstefnu Íslands í akademíu utanríkisráðuneytis Rússlands.

Á morgun mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra hitta Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. nóvember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta