Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2001 Matvælaráðuneytið

Fyrirspurnaþing 16. og 17. nóvember 2001

Fréttatilkynning


Sjávarútvegsráðuneytið efnir til fyrirspurnaþings (public hearing) 16. og 17. nóvember næstkomandi.

Í vor komst Hafrannsóknarstofnunin að þeirri niðurstöðu að hún hefði ofmetið verulega stofnstærð þorskstofnsins. Var þetta annað árið í röð sem stofnunin komst að niðurstöðu í þessa átt og hefur ráðuneytið minnkað leyfilegan hámarksafla á þorski mikið frá því sem áður var. Efnt er til fyrirspurnaþings í tilefni af þessu.

Á fyrirspurnaþinginu á að ræða forsendur og aðferðir vísindamanna á sviði stofnstærðarmats fiskstofna frá ýmsum sjónarhornum og er tilgangurinn að stuðla að opinni gagnrýnnri og rökstuddri umræðu um þetta mikla hagsmunamál allra Íslendinga. Ráðuneytið telur skipta mjög miklu að efla enn betur þekkingargrunn þeirra vísinda sem stjórnvöld styðjast við í þessu efni og tiltrú almennings og atvinnugreinarinnar á að þau séu þau bestu sem völ er.

Form fyrirspurnaþingsins er þannig að í fyrsta hluta munu sérfræðingar Hafrannsóknarstofunarinnar gera grein fyrir aðferðum við stofnstærðarmat bæði út frá líffræðilegu og tölfræðilegu sjónarhorni. Í öðrum hluta verður farið yfir þá fræðilegu gagnrýni sem fram hefur komið á störf Hafrannsóknastofnunarinnar að þessu leyti og greina sérfræðingar í líffræði og tölfræði frá hvað þeir telja betur mega fara í starfinu. Í þriðja hluta er rætt um hvernig niðurstöður stofnstærðarmats eru notaðar við veiðiráðgjöf, þegar heildaraflamark er ákveðið og aflareglu beitt. Óháður bandarískur sérfræðingur sem ráðuneytið hefur ráðið til að gera úttekt á aðferðum og forsendum Hafrannsóknastofnunarinnar við stofnstærðarmatið mun að síðustu gefa yfirlit yfir störf sín og birta áfangamat.

Til viðbótar þessum framsöguerindum hafa valdir menn verið fengnir víðs vegar að og munu þeir í hverjum hluta beina fyrirspurnum til frummælenda. Einnig eru leyfðar fyrirspurnir úr sal í sérstökum dagskrárliðum. Í hópi valinna fyrirspyrjenda eru fiskifræðingar, stærðfræðingar, erfðafræðingar, stofnvistfræðingur, hagfræðingar, skipstjóri, fiskverkandi og smábátasjómaður. Fyrirspurnaþingið er öllum opið.

Þungamiðja fyrirspurnaþingsins verður þannig umræða um aðferðir sem beitt er við líffræðilegan þátt fiskveiðistjórnunarinnar, en jafnframt eru tekin til umræðu atriði þar sem hagfræði snertir viðfangsefnið. Eiginlegt hagrænt skipulag fiskveiðanna við Ísland verður hins vegar ekki til umræðu. Heldur er athyglinni beint að þeim vísindalegu forsendum sem til umfjöllunar eru þegar heildaraflamark er ákvarðað.

Sjávarútvegsráðuneytið 2. nóvember 2001

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum