Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2001 Innviðaráðuneytið

Málþing um aðgang Íslendinga að rafrænum tímaritum á Netinu

Verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum hélt málþing í Þjóðarbókhlöðu þann 5. nóvember 2001 um aðgang Íslendinga að rafrænum tímaritum á Netinu. Á þinginu fjölluðu fulltrúar tímaritaútgefenda um rafrænu tímaritin, gagnasöfnin sem þau eru í og hvaða möguleika gagnasöfnin bjóða notendum upp á. Björn Bjarnason menntamálaráðherra ávarpaði gesti í upphafi þingsins.

Mynd: Lógó fyrir hvar.is

Vorið 1998 setti Björn Bjarnason menntamálaráðherra á fót nefnd sem skyldi skila skýrslu til ráðuneytisins um þörf bókasafna, stofnana og einstaklinga fyrir rafræn gagnasöfn. Niðurstöður skýrslunnar voru m.a. að tilgreina þau gagnasöfn sem væru talin mikilvægust íslensku vísindasamfélagi og almenningi, skipuð yrði verkefnisstjórn sem ynni að verkefninu "rafræna bókasafnið". Lögð skyldi áhersla á að kaupa aðgang að gagnasöfnum á Netinu. Í framhaldinu eða í ársbyrjun 2000 skipaði menntamálaráðherra verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að kanna tilboð um aðgang að gagnasöfnum og gera tillögur til ráðuneytisins um kaup á aðgangi að þeim, fjármögnun, skipulag og tilhögun. Aðaláhersla hefur verið lögð á að semja um "landsaðgang" þar sem allir nettengdir landsmenn hafa aðgang að rafrænu gagnasöfunum án tillits til hvar þeir eru staddir - í vinnu, í skóla eða heima.

Fyrsti landssamningurinn um aðgang að gangasöfnum var undirritaður af Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra í apríl 1999 og opnaði hann fyrir aðgang allra landsmanna að alfræðisafninu Britannica Online System. Samningurinn var tímamótasamningur því ekki er vitað til þess að gagnasafnsfyrirtæki hafi áður opnað aðgang fyrir heila þjóð að upplýsingum sem þessum. Í október 2000 undirrituðu menntamálaráðherra og landsbókavörður samning við Bell&Howell Information Learning um landsaðgang að þremur gagnasöfnum, ProQuest 5000 sem í eru 19 gagnagrunnar á ýmsum sviðum, t.d. viðskiptafræði, heilbrigðisfræði og tölvufræði, Literature Online sem er gagnagrunnur yfir sögur, leikrit og ljóð samin á ensku og ProQuest Literature Learning. Frá þeim tíma og til dagsins í dag hafa alls verið gerðir átta samningar um landsaðgang að rafrænum upplýsingum. Má nefna samninga við ISI um landsaðgang að Web of Science sem er yfirgripsmikill gagnagrunnur á sviði raunvísinda, félagsvísinda og hugvísinda, Data Downlink um aðgang að Alacra, v
efgátt á sviði viðskipta og við Macmillan um aðgang að The Grove Dictionary of Art Online og The New Grove Dictionary of Music and Musicians. Þessir samningar fela í sér aðgang að alls 33 gagnasöfnum, 300.000 bókmenntaverkum, 6.700 tímaritum með fullum texta og útdráttum úr 3.700 öðrum tímaritum.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur með höndum framkvæmd verkefnisins en í því felst meðal annars að koma upplýsingum um gagnasöfnin og rafrænu tímaritin á framfæri við notendur og annast samskipti við þá og hina erlendu seljendur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta