Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands

Ávarp aðalfundi Dómarafélags Íslands

föstudaginn 9. nóvember 2001




      Kæri dómarar,

      Það er mér ánægja að koma á ykkar fund og ræða við ykkur um þau nokkur mál sem við erum að glíma við í dómsmálaráðuneytinu. Reyndar erum við einmitt þessa dagana mest að glíma við fjárlagatillögur vegna næsta árs og er ljóst að víða verður þá þrengra í búi hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra en við vonuðum í upphafi fjárlagagerðarinnar. Því valda ný útgjaldatilefni og fyrirsjáanlegur samdráttur í tekjum ríkissjóðs.

      Breytingarnar á þjóðfélagi okkar og samfélagi þjóðanna eru örar um þessar mundir og þær breyta ýmsu í daglegu lífi okkar allra. Þannig eru erlend samskipti stöðugt tímafrekari þáttur í starfi okkar sem með ráðuneyti fara og í ráðuneytum starfa. Dómarar verða nú að tileinka sér þekkingu á ýmsum milliríkjasamningum sem Ísland hefur fullgilt og löggjöf sem frá þeim er runnin, en túlkun ákvæða í slíkum samningum kann oft að vera vandasöm og kalla á tímafrekar rannsóknir í fræðiritum og víðar.

      Þannig er það með það efni, sem Jónas Jóhannsson héraðsdómari mun fjalla um síðar hér á fundinum.

      Við þurfum líka að fylgjast með þróuninni í dómaframkvæmd hér innanlands og hafa góða yfirsýn yfir hana. Ég sé í dagskrá fundarins , að Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari mun fjalla um refsiákvörðunarástæður en hann hefur sérstaklega unnið að rannsókn á því sviði undanfarið . Er ekki að efa að gagnlegt verður að hlýða á hann skýra frá niðurstöðum sínum.

      Dómsmálaráðuneytið er um þessar mundir að vinna að lagafrumvörpum, sem sum hver, - ef að lögum verða, - geta aukið við úrlausnarefni dómstólanna en önnur fækkað þeim. Í síðarnefnda flokknum vil ég nefna frumvarpið um fasteignakaup, sem mælt verður fyrir í næstu viku, en þar er settar ítarlegar reglur í þeim tilgangi að skera úr ýmsum algengum ágreiningi í viðskiptum með fasteignir. Ef þau lög verða vel kynnt meðal þeirra sem höndla með fasteignir, ætti slíkum ágreiningi að vera útrýmt í ríkum mæli..

      Þá vil ég nefna nokkrar fyrirhugaðar breytingar á almennum hegningarlögum sem fjalla um endurskoðun á ákvæðum kynferðisbrotakafla um börn, eignaupptökuákvæðum, refsiábyrgð opinberra starfsmanna og aðlögun refsiákvæða að samningum gegn fjármögnun hryðjuverka , skipulagðri glæpastarfsemi og verslun með konur.

      Ég vil nefna frumvarp til nýrra útlendingalaga, sem ég tel mjög mikilvægt að verði lögfest. Hér er um að ræða ítarlegt frumvarp, sem lagt var fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt.

      Sifjalaganefnd fjallar nú um gerð nýrra barnalaga Við gildistöku gildandi barnalaga 1. júlí 1992 var dómstólum falið að fara með mál þar sem deilt er um forsjá barna, sem áður hafði einvörðungu verið leyst úr í ráðuneytinu. Varlegra þótti þó við þá lagasetningu, að heimila einnig að í ráðuneytinu yrði áfram farið með forsjármál ef aðilar óskuðu þess. Reynslan hefur sýnt að forsjármálum í ráðuneytinu hefur fækkað ár frá ári í gildistíð barnalaga og aðilar hafa þannig kosið að bera mál sín fremur undir dómstóla en stjórnvald.

      Þær hugmyndir hafa komið upp við smíði frumvarpsins til nýrra barnalaga að mál um forsjá barna verði alfarið falin dómstólum. Einnig hefur komið til tals að dómstólum verði falið að dæma jafnframt um meðlag og úrskurða um ágreining um umgengni barns og foreldris þegar forsjármál er til meðferðar fyrir dómstólum, en einungis stjórnvöld leysa nú úr málum um meðlag og umgengni.

      Ég ítreka að þetta ætti einvörðungu við, þegar mál barns og foreldris er til meðferðar fyrir dómi. Sýslumenn munu að öðru leyti alfarið fara með meðlags- og umgengnismál.

      Ég nefni þetta sem dæmi, þar sem viðfangsefni dómstóla yrðu aukin, en dómarar myndu í auknum mæli fara með mál á sviði barnaréttar, ef þessar hugmyndir ná fram að ganga í frumvarpi, og síðar í löggjöf.

      Ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum meðferð mála á grundvelli Haagsamnings og Evrópusamnings frá 1980, sbr. lög nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o. fl., en þar er dómsmálaráðuneytið í hlutverki svokallaðs miðstjórnarvalds skv. samningunum.

      Mál sem komið hafa til meðferðar í ráðuneytinu og varða brottnám barna, frá því Ísland varð aðili að þessum samningum 1. nóvember 1996, eru nú orðin 25 talsins, þar af hefur verið leyst úr 16 málum hér á landi, en í 9 málum var afhendingar barns krafist frá öðrum ríkjum til Íslands..

      Þó nokkur börn verið send til Íslands af erlendum dómstólum og eins hafa íslenskir dómstólar ákveðið afhendingu barna á grundvelli samninganna, þótt oftast hafi, sem betur fer, verið komist hjá umfjöllun um einstök mál í fjölmiðlum. Reynsla mun því væntanlega skapast með tímanum við íslenska dómstóla um úrlausn brottnámsmála.

      Meðferð og úrlausn brottnámsmála er um margt mjög sérstök, eins og vafalaust mun koma fram hjá fyrri fyrirlesara fundarins. Mörg aðildarríki Haagsamningsins hafa gripið til þess ráðs að fela fáum sérhæfðum dómstólum úrlausn þessara mála. Hér hefur sú leið ekki verið valin en þess í stað fór Jónas Jóhannsson á vegum dómsmálaráðuneytisins, í samvinnu við Dómarafélagið, til vikulangs fundar í Haag í vor, þar sem fjallað var um framkvæmd Haagsamningsins og um meðferð mála á grundvelli hans. Er mér það mikil ánægja að hann skuli hér á aðalfundinum miðla áfram þeirri þekkingu sem hann aflaði sér varðandi brottnámsmál.

      En mig langar hér til þess að víkja að tveimur atriðum sem varða þessi mál og sem ég hef orðið vör við að miskilnings hafi gætt um. Hér á ég annars vegar við þann mun sem er á samningunum tveimur sem lög 160/1995 taka til og hins vegar þann grundvallarmun sem er á brottnámsmálum annars vegar og málum um forsjá barna hina vegar.

      Evrópusamningurinn fjallar um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana. Til að afhending barns sé ákveðin á grundvelli hans verður að liggja fyrir ákvörðun dómstóls um forsjá barns eða umgengni, sem unnt væri að fullnusta í ríkinu þar sem hún er tekin. Gengið er útfrá því að slíkar ákvarðanir séu teknar með meginregluna um að það sem barni er fyrir bestu skuli ráða niðurstöðu í máli er varðar barn.

      Haagsamningurinn fjallar um að koma barni til þess ríkis sem á lögsögu um málefni þess þegar svo stendur á að það hafi verið farið með það til annars ríkis í trássi við rétt t.d. annars foreldris. Þetta getur átt við til dæmis ef forsjá foreldra er sameiginleg, þau jafnvel enn í hjúskap og ekkert hefur verið fjallað um það af yfirvöldum hvar barni komi best að vera. Við meðferð málsins í heimaríkinu getur vel verið ákveðið að barnið skuli lúta forsjá foreldrisins sem nam það brott og endar þá með því að barnið fer aftur á sama stað, en þá í fullum rétti.

      Þessi grundvallarmunur á samningunum endurspeglast m.a. í því hvaða varnir er heimilt að hafa uppi í afhendingarmáli. Ef mál er byggt á Evrópusamningnum er aðeins unnt að líta til forms hinnar erlendu ákvörðunar en ekki efnis, hún má þó ekki brjóta í bága við grundvallarreglur íslensks réttar. Þegar mál er rekið á grundvelli Haagsamningsins, er heimilt að líta til afstöðu barnsins sjálfs og þess hvort alvarleg hætta sé á að afhending yrði skaðleg barni andlega eða líkamlega.

      Seinna atriðið sem ég vil víkja að er hversu brýnt það er að brottnámsmálum sé ekki ruglað saman við mál þar sem forsjá barns til frambúðar er ákveðin. Meðferð forsjármála er um margt frábrugðin afhendingarmálunum, sem rekin eru á grundvelli aðfararlaga, enda er ýmist um það að ræða að fullnusta ákvörðun sem liggur fyrir eða, verið er að færa barn, með beinni aðfarargerð, undir lögsögu þess ríkis sem fjalla á um forsjá þess til frambúðar. Ég þykist vita að fyrri fyrirlesarinn muni gera ítarlega grein fyrir þessum atriðum sérstaklega í erindi sínu síðar í dag.

      Góðir dómarar,

      Ég hef hér minnst á málaflokk sem gerir auknar kröfur til reynslu og þekkingar dómara. Úrlausn mála á sviði barnaréttar kallar oft á afbrigðilega meðferð og getur ekki lotið sömu lögmálum réttarfars og önnur svið réttarins. Því veldur fyrst og fremst meginreglan um að hagsmunir barnsins skuli ráða úrlausn máls, sem ryður meira að segja út meginreglum sem reyndum dómurum eru allt að því eðlislægar. Á sama tíma eru þeir hagsmunir sem í húfi eru sérstaklega miklir, meiri en svo að unnt sé að meta þá til peninga.

      Ég óska þess að þessi fundur stuðli að aukinni þekkingu á þeim málaflokki sem hér er sérstaklega til umræðu, málaflokki, sem er er aðeins einn af hinum óteljandi viðfangsefnum sem kalla á úrlausn dómstólanna í okkar flókna samfélagi. Ég óska ykkur og félagi ykkar heilla í mikilvægu hlutverki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta