Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2001 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins. 13.11.01

Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneytinu



Dagana 5.-9. nóvember sl. var haldinn í London 20. ársfundur Norðaustur - Atlantshafsfiskveiðiráðsins NEAFC.

Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, makríl, kolmunna og norsk - íslenskri síld fyrir árið 2002. Aðeins náðist samhljóða samkomulag um stjórn veiða úr norsk - íslenska síldarstofninum. Þá ákváðu samningsaðilar að halda aukafund í apríl á næsta ári til að vinna að lausn þeirra mála sem ekki náðist samkomulag um.

Á fundinum var m.a. kynnt ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni fólst að haga ætti stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið væri tillit til þess að á svæðinu væri í raun tveir karfastofnar. ICES ráðlagði að veiðar úr þeim skyldu takmarkaðar þannig að hvorugur stofninn yrði ofveiddur og að heildarveiðin færi ekki yfir 85.000 tonn. Ísland lagði á það ríka áherslu á fundinum að stjórn veiðanna yrði hagað í samræmi við ráðgjöf ICES, en einhliða stjórnun Íslendinga hefur undanfarin ár tekið mið af henni. Á fundinum kom fram tillaga um óbreytta stjórn veiðanna sem felur í sér einn heildarkvóta úr báðum stofnunum sem nemur 95.000 tonnum. Var tillaga þessi samþykkt. Ísland mótmælti tilllögunni og taldi ófært að fallast á hana þar sem hún gengi þvert á tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsinns um ábyrgar veiðar úr úthafskarfastofninum. Ísland lét bóka mótmæli sín við samþykktinni og er því ekki bundið af henni.

Þá var einnig samþykkt tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að ekki er í samkomulaginu tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Á fundinum var enn reynt að ná samkomulagi um stjórn kolmunnaveiða á svæðinu en heildarveiðar þessa árs eru orðnar ríflega 1,5 milljónir tonna. Ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir árið 2001 fólu í sér að heildarveiðin skyldi ekki fara umfram 628.000 tonn. Ráðgjöf næsta árs felur í sér að ekkert skuli veitt nema fyrir liggi samkomulag um stjórn veiða á svæðinu. Slík samkomulag náðist ekki en ákveðið var að fulltrúar strandríkjanna myndu hittast í desember næstkomandi til að reyna knýja fram lausn þessara mála.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 13. nóvember 2001.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum