Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Niðurstöður fjórðu ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 115


Á ráðherrastefnu 144 aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem haldin var í Doha, Katar, dagana 9. til 14. nóvember 2001, var samþykkt að hefja nýjar samningaviðræður um alþjóðaviðskipti, í því skyni að draga enn frekar úr viðskiptahömlum og fella fleiri svið viðskipta undir alþjóðlegar reglur. Sendinefnd Íslands var leidd af Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Hér verður gerð grein fyrir helstu ákvörðunum sem felast í ráðherrayfirlýsingu fundarins.

    1. Landbúnaður
Samkvæmt núverandi samningi WTO um viðskipti með landbúnaðarvörur eru samningaviðræður þegar hafnar um endurskoðun samningsins. Á fundinum ítrekuðu aðildarríkin fyrri skuldbindingar sínar um að semja um lækkun tolla, afnám útflutningsbóta og að dregið verði úr innanlandsstuðningi. Að sama skapi skyldi taka mið af byggðastefnu, umhverfisþáttum, fæðuöryggi og hollustu. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra kvaðst á ráðherrastefnunni hafa skilning á samningsmarkmiðum aðildarríkja WTO en vakti athygli á sérstöðu íslensks landbúnaðar. Megin ágreiningur aðildarríkjanna að þessu sinni var um afnám útflutningsbóta í landbúnaði, en Ísland hefur ekki beitt þeim undanfarin ár.

2. Þjónustuviðskipti
Aðildarríkin ítrekuðu skuldbindingar sínar um að halda áfram viðræðum um alla þætti þjónustuviðskipta með það að markmiði að auka frjálsræði í þessum viðskiptum og leggja af hvers kyns hömlur. Viðræðurnar hófust í byrjun síðasta árs.

3. Markaðsaðgangur
Hafnar verða samningaviðræður um lækkun tolla á iðnaðarvörum, þ. m. t. sjávarafurðum. Jafnframt verði dregið úr öðrum viðskiptahindrunum eða þær afnumdar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði áherslu á mikilvægi fríverslunar með sjávarafurðir í þessu sambandi.
    4. Ríkisstyrkir í sjávarútvegi
    Sérstaklega verður tekið á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Markmiðið er að setja reglur um beitingu ríkisstyrkja og stuðla að afnámi þeirra. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði mikla áherslu á þennan þátt viðræðnanna en Ísland ásamt fleiri ríkjum átti frumkvæði að þessu máli og leiddi það í undirbúningi fyrir ráðherrastefnuna.

    5. Samningurinn um hugverkaréttindi og aðgangur að lyfjum
    Aðilarríkin samþykktu ályktun um að heimila framleiðslu á lyfjum án þess að handhafi hugverkaréttar njóti ávinnings í þeim tilfellum þegar neyðarástand ríkir. Þessu er sérstaklega beint að því neyðarástandi sem ríkir t.d. á einstökum svæðum í Afríku vegna alnæmis.

    6. Önnur mál
    Samningaviðræður verða hafnar um tvö ný mál á vettvangi WTO. Þessi mál eru annars vegar reglur er varða opinber innkaup og hins vegar reglur um leiðir stjórnvalda til að einfalda tollmeðferð. Jafnframt var samþykkt að vinnu við fjárfestinga- og samkeppnismál yrði framhaldið á vettvangi WTO með það að markmiði að hefja samningaviðræður um þessa málaflokka síðar.

    7. Skipulag viðræðnanna
    Samningaviðræðurnar hefjast í ársbyrjun 2002 og fjalla um öll viðfangsefnin samtímis og er gert ráð fyrir að engum samningum teljist lokið fyrr en samkomulag liggur fyrir á öllum sviðum. Gert er ráð fyrir að samningalotunni ljúki á þremur árum. Sett verður á fót aðalsamninganefnd og undirnefndir í einstökum málaflokkum. Ljóst er því að mikilvægar samningaviðræður eru framundan sem varða miklu fyrir íslenska viðskiptahagsmuni.
      Kína, ásamt Taívan, bættist í hóp aðila að WTO á ráðherrastefnunni. Þar með eru aðilar orðnir 144. Þetta er mikilvægur áfangi í sögu WTO og staðfestir þann ávinning sem ríki telja sig hafa af þátttöku í störfum stofnunarinnar.
      Í aðildarviðræðum Kína að WTO sömdu Ísland og Kína um lækkun tolla á mikilvægum sjávarafurðum. Í tollskrá Kína eru 152 vöruflokkar fyrir sjávarafurðir og samdi Ísland um lækkun tolla á 52 þeirra. Kína innheimtir allt að 30% toll í innflutningi á sjávarafurðir. Ísland náði mikilvægum samningum um að tollar verði 2 til 16% á flestar sjávarafurðir sem Ísland flytur út og allar sem eru mikilvægar á markaði Kína.



      Utanríkisráðuneytið
      Reykjavík, 14. nóvember 2001.



      Efnisorð

      Hafa samband

      Ábending / fyrirspurn
      Ruslvörn
      Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

      Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

      Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta