Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2001 Utanríkisráðuneytið

Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 117


Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í dag gefið út 9. skýrslu sína um frammistöðu EFTA ríkjanna við innleiðingu tilskipana evrópska efnahagssvæðisins í landsrétt sinn. Skýrsla þessi kemur út samhliða skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) um sama efni fyrir aðildarríki þess.
Í 8. skýrslu ESA í maí s.l. kom m.a. fram að Ísland var í 16. sæti meðal aðildarríkja EES hvað varðar árangur í innleiðingu EES-tilskipana meðan Liechtenstein var í 4. sæti og Noregur í 17. sæti. Kom fram að alls 3,6% tilskipana höfðu ekki verið innleiddar hér á landi með fullnægjandi hætti.
Aðildarríki EFTA og ESB hafa sett sér það markmið að í maí 2002 verði aðildarríki á hverjum tíma ekki með meira en 1,5% tilskipana óinnleiddar.
Að mati íslenskra stjórnvalda er mjög mikilvægt fyrir stöðu EFTA ríkjanna innan EES að ná góðum árangri á þessu sviði þar sem það styrkir stöðu þeirra í samstarfinu og sýnir með táknrænum hætti hvers virði þau telja EES-samninginn og virkni hans.
Samanburður milli allra 18 aðildarríkja EES nú leiðir í ljós að Ísland er í 6. sæti þeirra þar sem fram kemur að 1,4% tilskipana hafa ekki verið innleiddar með fullnægjandi hætti hér á landi. Á sama tíma situr Noregur í 7.-8. sæti og Liechtenstein í 10.-11. sæti. Hefur Ísland bætt sig um 61% frá því í maí s.l. sem er mest allra ríkja á EES-svæðinu og hefur því þegar náð því markmiði sem aðildarríkin hafa sett sér.
Fram kemur að í fyrsta skipti standa EFTA ríkin sem ein heild sig betur en ESB en að meðaltali eru 1,8% EES-reglna óinnleiddar í EFTA ríkjunum í samanburði við 2% innan ESB. Í maí s.l. var þessi tala 3% fyrir EFTA ríkin í samanburði við 2,5% hjá ESB.
Í skýrslunni er farið yfir mál sem ESA hefur tekið upp gagnvart einstökum EFTA ríkjum og kemur þar m.a. fram að Ísland stendur sig best allra EES ríkjanna í að leysa slík mál á fyrstu stigum málsmeðferðar.
Í skýrslu ESA er vakin athygli á einstökum vandkvæðum sem eru til staðar að því er varðar innleiðingu s.s. að enn séu tafir í innleiðingu of miklar. Að sama skapi vekur ESA athygli á að Ísland þurfi að bæta sig að því er varðar innleiðingu EES-reglna á sviði umhverfis- og félagsmála.
Ljóst er að með þessari niðurstöðu hefur Ísland þegar náð þeim markmiðum sem sett voru. Er það ekki síst að þakka markvissu átaki sem öll ráðuneyti hafa tekið þátt í undanfarna mánuði í því skyni að bæta innleiðingu EES-reglna.
Skýrsluna ásamt fréttatilkynningu ESA er að finna á heimasíðu ESA, http://www.efta.int/



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. nóvember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta