Varnir gegn mengun hafsins - alþjóðlegur ráðherrafundur í Montreal
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun í vikunni sitja alþjóðlegan ráðherrafund um varnir gegn mengun hafsins. Ráherrafundurinn er hluti af alþjóðlegri ráðstefnu um sem hófst í Montreal í Kanada í dag. Þetta er fyrsti ráðherrafundurinn um framkvæmd Washington áætlunarinnar um aðgerðir gegn mengun hafsins frá landi, frá samþykkt hennar árið 1995. Ráðstefnuna sækja fulltrúar yfir 120 ríkja auk fulltrúa alþjóðastofnana, atvinnulífs, umhverfisverndarsamtaka og alþjóðasamtaka sveitarfélaga.
Washington samþykktin markaði tímamót í baráttunni gegn mengun hafsins. Hér er um að ræða fyrstu hnattrænu aðgerðirnar um varnir gegn mengun sjávar frá landi. Um 80% mengunarefna í hafinu eiga uppruna sinn í starfsemi í landi en eingöngu 20% koma frá skipum og öðrum uppsprettum á hafi úti. Íslendingar voru meðal þeirra ríkja sem börðust hvað harðast fyrir gerð Washington-áætlunarinnar og var síðasti undirbúningsfundurinn fyrir hana haldinn í Reykjavík. Ísland hefur og staðið framarlega í framvindu framkvæmdaáætlunarinnar.
Þess má geta að alþjóðlegur samningur um þrávirk lífræn efni sem samþykktur var í Stokkhólmi í maí sl., er árangur af samþykkt Washington-áætlunarinnar.
Meginmarkmið ráðherrafundarins er þríþætt. Í fyrsta lagi umræður um aðgerðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum skolps í hafinu en með skolpi streyma til sjávar fjölmörg mengunarefni. Í öðru lagi verða ræddar aðgerðir til þess að draga úr eyðileggingu búsvæða í hafinu. Í þriðja lagi aðgerðir til þess að styrkja, hraða og efla framkvæmd áætlunarinnar. Niðurstöður ráðstefnunnar verða lagðar fyrir leiðtogafund um sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Jóhannesarborg í september 2002.
Við upphaf ráðstefnunnar í gær var Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins kosinn annar af tveimur formönnum ráðstefnunnar. Kosning Magnúsar er viðurkenning á stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi um varnir gegn mengun hafsins.
Ásamt Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra og Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra sitja ráðstefnuna fyrir Íslands hönd Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og Dr. Kristján Geirsson, sérfræðingur hjá Hollustuvernd ríkisins.
Frekari upplýsingar veitir Einar Sveinbjörnsson í umhverfisráðuneytinu.
Fréttatilkynning nr. 18/2001
Umhverfisráðuneytið