Samvinnuferðir-Landsýn óska gjaldþrotaskipta
Í gær, þriðjudag, ákvað stjórn ferðaskrifstofunnar Samvinnuferða-Landsýnar að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Í ljósi þessa vill samgönguráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
Þeir sem greitt hafa inn á eða að fullu, alferðir hjá Samvinnuferðum Landsýn hf., en hafa ekki hafið ferð, skulu senda skriflegar kröfulýsingar til samgönguráðuneytisins.
Í kröfulýsingu skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang þess er lýsir kröfunni. Sé lýst kröfu fyrir fleiri en einn aðila þurfa þessar upplýsingar að koma fram um alla. Taka þarf fram hvenær greitt var inn á ferð og hversu mikið, auk allra annarra upplýsinga er máli skipta. Með kröfulýsingunni skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna svo sem farseðlar og kvittanir, sem falla saman við þá kröfu sem lýst er.
Er bent á að þeir sem lýsa kröfu skulu halda eftir ljósriti af kröfulýsingunni og þeim gögnum sem send eru með henni. Senda skal kröfulýsinguna sjálfa í tvíriti til ráðuneytisins, sem kvittar á ljósritið um móttöku og endursendir til viðkomandi til staðfestingar á móttökunni.
Haft verður samband við alla skriflega af hálfu ráðuneytisins í framhaldi og gerð grein fyrir framhaldi málsins.
Þeim farþegum sem eru erlendis á vegum Samvinnuferða Landsýnar í alferðum verður tryggð gisting og heimferð.
Bent er á lög nr. 117/1994 til frekari skýringa og upplýsingar á vef samgönguráðuneytisins, www.samgonguraduneyti.is