24. - 30. nóvember 2001
Fréttapistill vikunnar
24. - 30. nóvember 2001
Félagsleg réttindi Íslendinga sem falla utan við EES-samninginn tryggð að fullu
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur gengið frá samningi til hliðar við EES samninginn um félagsleg réttindi launafólks við stjórnvöld í Luxemborg. Samningur þessa efnis var undirritaður í Luxemborg í hádeginu í dag (30 nóv.). Með samningnum eru tryggð að fullu þau félagslegu réttindi Íslendinga sem falla utan EES samningsins. Við sama tækifæri var gengið frá samkomulagi milli Tryggingastofnana landanna sem hefur að markmiði að einfalda uppgjör og afgreiðslu mála sem snerta félagsleg réttindi borgara beggja landanna. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra og Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituðuð samkomulagið fyrir hönd tryggingayfirvalda.
Ráðuneytið veitir ellefu milljónir króna til að fjölga krossbands- og gerviliðaaðgerðum
Á sjúkrahúsinu á Akranesi hafa undanfarið verið gerðar sautján krossbandaaðgerðir, þar af 15 á árinu sem er að líða. Fjórar svokallaðar "opnar" aðgerðir og 13 með speglun. Aðgerðirnar eru gerðar á sjúkrahúsinu með innlögn í stuttan tíma. Biðtími eftir þessum aðgerðum á sjúkrahúsinu á Akranesi hefur verið svipaður og eftir öðrum almennum aðgerðum bæklunarlækna þar, eða á bilinu þrír til fimm mánuðir. Nú bíða fimm eftir krossbandaaðgerð á Akranesi, en ráðuneytið samþykkti fyrir skemmstu að auka framlög til sjúkrahússins um tvær milljónir króna til að fjölga aðgerðum á árinu. Þá hefur heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið ákveðið að veita 9 milljónir króna til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og fjölga með því gerviliðaaðgerðum um 30 á árinu. Sjúkrahúsið hafði áður lýst áhuga á að fjölga þessum aðgerðum um 30 til 40 á árinu sem er að líða.
Styrking heilsugæslunnar á höfðuborgarsvæðinu
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 er 37 milljóna króna framlag á óskiptum lið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins ætlað til að styrkja heilsugæsluna, auka þjónustu og stytta biðtíma, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi liður verður notaður til að styrkja stöðu heilsugæslunnar m.a. með því að fjölga heilsugæslulæknum en endanlegur fjöldi er ekki ákveðinn enda er ætlunin að styrkja fleiri þætti heilsugæslunnar. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigiðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu.
SVAR RÁÐHERRA Í HEILD...
Norðurlandaþjóðirnar auka framlög vegna efna- og sýklavopnavár og efla samvinnu á þessu sviði
Heilbrigðismálaráðherrar Norðurlandanna samþykktu á fundi sínum í Svíþjóð í vikunni að þjóðirnar ynnu saman og aðstoðuðu hverjar aðra ef hermdarverkamenn beittu kjarnorku-, sýkla- eða efnavopnum eða öðrum stríðstólum á Norðurlöndunum. Ráðherrarnir samþykktu sömuleiðis að efla þá samvinnu sem þegar er hafin á þessum sviðum s.s. á sviði lyfjamála, bólusetningar, rannsókna og sérfræðiaðstoðar. Á fundinum kom fram að dönsk heilbrigðisyfirvöld og Statens Seruminstitut hafa ákveðið að gefa Íslendingum 10 þúsund skammta af bóluefni við bólusótt og verður það afhent í desember. Á Norðurlöndunum hafa framlög vegna efna- og sýklavopnavár verið aukin umtalsvert. Á fundi ráðherranna kom fram að Norðmenn hyggjast leggja rúmar 700 milljónir íslenskra króna til málaflokksins nú, til viðbótar því fé sem þegar er varið til efna- og sýklavarna.
Tillögur um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahús væntanlegar um miðjan desember
Nefnd um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss skilar tillögum sínum til heilbrigðisráðherra um miðjan desember. Skila átti tillögunum í lok nóvember, en það tefst, þar sem beðið er eftir endanlegum teikningum þar sem fram eiga að koma möguleikar á nýtingu þeirra sjúkrahúslóða sem koma til greina. Þessi vinna er í höndum sænsku arkitektarstofunnar White Arkitekter. Fyrirtækið VSÓ-ráðgjöf vinnur er nú að ljúka gerð kostnaðaráætlunar vegna ýmissa möguleika um uppbyggingu sjúkrahússins í samvinnu við sænsku arkítektastofuna. Formaður nefndar um framtíðaruppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss er Ingibjörg Pálmadóttir.
Stofnfundur Félags um lýðheilsu, mánudaginn 3. desember
Stofnfundur Félags um lýðheilsu verður haldinn mánudaginn 3. desember kl. 17 í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur (fundasal 1. hæð). Félaginu er ætlað að verða regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu þar sem tækifæri gefst til að samhæfa hugmyndir og vinna að nýjum verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar. Sambærileg félög eru starfandi í nágrannalöndum okkar og einnig eru til alþjóðasamtök sem leitað verður samstarfs við. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Sigurður Guðmundsson, landlæknir flytur erindi um lýðheilsu á landinu. Drög að lögum félagsins verða kynnt og kosið í stjórn.
NÁNAR...
30. nóvember 2001