Ráðherrafundur ÖSE í Búkarest
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 122
Ráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, var haldinn í Búkarest, 3.- 4. desember 2001 og var meginefni fundarins barátta gegn hryðjuverkastarfsemi.
Á fundinum samþykktu ráðherrar aðildarríkjanna 55, sérstaka yfirlýsingu og aðgerðaáætlun til að stemma stigu við hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir nánu samstarfi og samráði ÖSE við Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið og Evrópuráðið.
Þórður Ægir Óskarsson, fastafulltrui Íslands hjá ÖSE, sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðherra. Fastafulltrúi lýsti yfir ánægju með samþykkt aðgerðaáætlunar ÖSE gegn hryðjuverkastarfsemi, en með henni væri lagður grunnur að eflingu starfs ÖSE gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, ekki síst fíkniefnasmygli og mansali.
Þá áréttaði fastafulltrúi Íslands mikilvægi starfsemi ÖSE á sviði mannréttinda, átakavarna og eflingar lýðræðis. Með margþættu framlagi á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi sendinefnda á vettvangi, gegndi ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi í aðildarríkjunum.
Loks lagði fastafulltrúi sérstaka áherslu á eflingu starfa ÖSE í baráttunni gegn mansali og kynlífsþrælkun. Einnig þyrfti ÖSE að gæta í ríkara mæli að mannréttindum barna, ekki síst á átakasvæðum í aðildarríkjunum.
Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísrael, var sérstakur gestur ráðherrafundarins.
Meðfylgjandi er ávarp fastafulltrúa á fundinum. Jafnframt er hægt að nálgast allar aðrar upplýsingar og yfirlýsingar ráðherrafundarins á vefsíðu ÖSE: www.osce.org
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 4. desember 2001.