Hoppa yfir valmynd
6. desember 2001 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 123


Baráttan gegn hryðjuverkum og samskipti Atlantshafsbandalagsins við Rússland voru helstu mál á dagskrá utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Á fundinum kom fram að mörg aðildarríki binda vonir við að mikilvægur árangur náist á fundi utanríkisráðherranna í Reykjavík í vor á ólíkum sviðum, þ.m.t. stækkunarferlinu og samskiptunum við Rússland.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi bandalagsins í baráttunni gegn hryðjuverkum og að bregðast þyrfti við ógninni af gereyðingarvopnum, m.a. með aukinni samvinnu á sviði almannavarna í samvinnu við samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra sagði einnig mikilvægt að nota það tækifæri sem skapast hefði til að efla samvinnu bandalagsins við Rússland. Stefna bæri að því að ganga frá ákvörðunum um form og innihald þeirrar samvinnu hið fyrsta eða í síðasta lagi á utanríkisráðherrafundinum í Reykjavík vorið 2002.

Utanríkisráðherrarnir fjölluðu um samskipti Atlantshafsbandalagsins við Evrópusambandið og ástandið á Balkanskaga í vinnuhádegisverði. Eftir hádegi var haldinn utanríkisráðherrafundur í samstarfsnefnd bandalagsins og Úkraínu.

Á fundinum með úkraínska utanríkisráðherranum var fjallað um öryggismál á Evró-Atlantshafssvæðinu í ljósi hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin, framlag Úkraínu til að tryggja stöðugleika og frið á Balkanskaga og samstarfsáætlun bandalagsins og Úkraínu fyrir næsta ár.

Síðar í dag verður haldinn sameiginlegur fundur Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins, þar sem einkum verður fjallað um samstarf samtakanna, eftirmála hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin og ástandið á Balkanskaga.

Á morgun verða haldnir fundir í samstarfsráði bandalagsins og Rússlands, og í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu.

Hjálagt er ávarp utanríkisráðherra á fundi Atlantshafsbandalagsins um baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og ávarp ráðherra á hádegisverðarfundi um samstarf Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum. Einnig fylgja sameiginleg yfirlýsing ráðherranna um baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og lokayfirlýsing fundar ráðherra Atlantshafsbandalagsins. Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á heimasíðu bandalagsins (www.nato.int).







Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 6. desember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta