Fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins og Rússlands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 124
Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins og Rússlands samþykktu á fundi sínum í morgun að stefna að umfangsmeira samstarfi og nýju samstarfsfyrirkomulagi sem festa á í sessi í síðasta lagi á utanríkisráðherrafundinum í Reykjavík vorið 2002. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi aukins samstarfs við Rússland, ekki síst í baráttunni gegn hryðjuverkum. Byggja verði á reynslu Samstarfsráðs NATO og Rússlands (PJC) þannig að málefni, fremur en form, móti framtíðarsamstarfið. Minntist ráðherra fundar Reagan og Gorbatsjov í Höfða 1986 sem markaði upphaf endaloka kalds stríðsins. Vonaði hann að fundurinn í Reykjavík markaði enn önnur tímamót í samskiptum bandalagsins og Rússlands.
Þá sat ráðherra fund utanríkisráðherra 46 ríkja Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins (EAPC), þar sem m.a. voru ræddar tillögur Svíþjóðar og Finnlands um samvinnu aðildarríkja samstarfsráðsins í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Hjálagt fylgir sameiginleg yfirlýsing NATO og Rússlands. Nánari upplýsingar um fundina er að finna á heimasíðu bandalagsins (www.nato.int).