Hoppa yfir valmynd
10. desember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Virkara eftirlit með hryðjuverka- og afbrotastarfsemi innan Evrópu

Virkara eftirliti með hryðjuverka- og afbrotastarfsemi innan Evrópu meðal ákvarðana samsettu Schengen nefndarinnar

Fréttatilkynning

Nr. 43/ 2001


Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra stýrði í dag fundi dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna 15 auk Íslands og Noregs á vettvangi samsettu nefndarinnar innan Schengen samstarfsins. Á fundi ráðherranna var meðal annars rætt um baráttuna gegn hryðjuverkum, stefnu Schengen ríkjanna í vegabréfsáritunarmálum og nýjar leiðir til að beita endurbættu Schengen tölvukerfi í baráttunni gegn glæpum og hryðjuverkum.

Að frumkvæði Íslands var rætt um aðgerðir Schengen ríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Sólveig Pétursdóttir gerði grein fyrir helstu aðgerðum Íslands á þessu sviði, en þar má nefna fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn hryðjuverkum, fyrirhugaðar nauðsynlegar lagabreytingar og aðgerðir sem gripið hefur verið til á landamærum og aðrar aðgerðir af hálfu lögreglu, þar á meðal hvað varðar notkun Schengen upplýsingakerfisins. Á fundinum kom fram breið samstaða Schengen ríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Upplýst var af hálfu Belgíu, sem fer með formennsku í ESB, að Evrópusambandsríkin hefðu á fundi sínum í gær náð samstöðu um rammaákvörðun um baráttuna gegn hryðjuverkum, sem meðal annars felur í sér sameiginlega skilgreiningu á hryðjuverkum og samræmingu refsinga við þeim.

Af ákvörðunum á fundi samsettu Schengen nefndarinnar má nefna stefnumótun sem felur í sér að stefnt er að virkara eftirliti með hryðjuverka- og afbrotastarfsemi innan Evrópu með Schengen upplýsingakerfinu og auknu samráði Evrópuríkjanna við útgáfu vegabréfsáritana í einstökum ríkjum og hertum öryggisreglum á því sviði. Þá má nefna að samkomulag varð um að aflétta vegabréfsáritunarskyldu inn á Schengen svæðið fyrir rúmenska borgara.

Ísland fer með formennsku í samsettu nefndinni fjórða hvert formennskutímabil, hálft ár hverju sinni. Er þetta annað tímabilið sem Sólveig stýrir nefndinni á vettvangi ráðherra.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
7. desember 2001.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta