Hoppa yfir valmynd
11. desember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Greiðslur til sérfræðilæknka - breytingar des 2001

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
11. desember 2001




6000 kr. hármaksgreiðsla vegna hverrar komu til sérfræðilæknis afnumin
- hámarksgreiðsluþökin gilda áfram


Sá sem leitar til sérfræðilæknis greiðir nú að hámarki sex þúsund krónur fyrir hverja einstaka komu til læknisins. Um áramótin er fyrirhugað að nema úr gildi þetta hámark fyrir hverja komu. Eftir það gilda almennar reglur um afsláttarkort, sem menn fá, þegar samanlagður kostnaður vegna læknisheimsókna á almanaksárinu nær tilteknu þaki.

Almenna reglan

Almenna reglan er sú, að þegar samanlagður lækniskostnaður nær 18 þúsund krónum á árinu fá menn afsláttarkort og eftir það greiðir hver og einn að jafnaði þriðjunginn af því sem hann greiddi áður en afsláttarþakinu er náð. Þetta þýðir til dæmis að sjúklingur sem kominn er með afsláttarkort og sækir sérfræðilækni sem rukkar samkvæmt gildandi gjaldskrá 10.800 krónur fyrir unnið læknisverk greiðir lækninum 1960 krónur, en hefði án afsláttarkortsins greitt honum 5400 krónur. Mismuninn í báðum tilvikum fær læknirinn greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins.
Sérstök regla fyrir elli-og örorkulífeyrisþega

Elli-og örorkulífeyrisþegar greiða sjálfir að jafnaði mun minna fyrir læknisheimsókn en gengur og gerist almennt, eða um þriðjung af venjulegu gjaldi. Þar fyrir utan er hámarksþak fyrir þennan hóp miklum mun lægra en almennt gerist. Hámarksþakið fyrir elli-og örorkulífeyrisþega er með öðrum orðum 4500 kr. og ekki 18 þúsund krónur eins og almennt gerist.

Þetta þýðir að þegar samanlagður lækniskostnaður elli-og örorkulífeyrisþega er kominn í 4500 krónur á árinu fær viðkomandi afsláttarkort frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef við tökum dæmi af sérfræðilæknisheimsókninni, sem áður var miðað við þar sem heildarkostnaðurinn er 10.800 krónur, þá greiðir elli-og örorkulífeyrisþegi 1960 krónur áður en hámarksþakinu er náð, en 600 krónur eftir að samanlagður lækniskostnaður er kominn í 4500 krónur á árinu og viðkomandi er kominn með afsláttarkort. Í því tilviki greiðir Tryggingastofnun ríkisins þær 10.200 krónur sem eftir standa af reikningnum.

Hámarksgreiðsluþak vegna barna miðast við öll börn í sömu fjölskyldu

Hlutur greiðslna barna fyrir læknisheimsóknir til sérfræðilækna eru þriðjungur af almennu gjaldi, eins og gildir um elli-og örorkulífeyrisþega. Ákvæðin um hámarksþökin eru hins vegar öðru vísi þar sem miðað er við samanlagðan lækniskostnað allra barna í sömu fjölskyldunni og ekki hvert og eitt.

Þetta þýðir til dæmis, að þegar samanlagður lækniskostnaður tveggja barna er kominn í sex þúsund krónur á árinu fær fjölskyldan afsláttarkort vegna lækniskostnaðar barnanna. Almennt gildir sem sé að þegar reikningur sérfræðilæknisins vegna heimsóknar barns er 10.800 krónur, þá eru greiddar 1960 krónur fyrir læknisheimsóknina. Þegar hins vegar samanlagður lækniskostnaður barnanna á árinu er kominn í sex þúsund krónur, og fjölskyldan hefur fengið afsláttarkort, þá kostar sérfræðilæknisheimsóknin viðkomandi 600 krónur, en Tryggingastofnun ríkisins greiðir lækninum afganginn, eða 10.200 krónur.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta