Hoppa yfir valmynd
11. desember 2001 Matvælaráðuneytið

Viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Viðskiptaverðlaunin 2001 og
Frumkvöðull ársins 2001


Ágætu samkomugestir.

Það er mér sérstök ánægja að vera hér í dag til þess að veita Viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2001 og að útnefna Frumkvöðul þessa árs.

Það hefur gengið á ýmsu í efnahagsmálum þjóðarinnar síðustu mánuði enda hafa ytri skilyrði verið erfiðari. Þróunin hér á landi hefur í aðalatriðum fylgt þróuninni í viðskiptalöndum okkar, sem enn á ný minnir okkur á, að Ísland er órjúfanlegur hluti af hinu alþjólega viðskiptaumhverfi.

Sama gildir um verðlaunahafana, sem með eftirtektarverðum hætti hafa haslað sér völl á alþjóðlegum markaði.

Viðskiptaverðlaunin 2001

Viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2001 falla í skaut bræðranna Ágústar Guðmundssonar sem er stjórnarformaður Bakkavarar Group hf., og Lýðs Guðmundssonar, forstjóra Bakkavarar Group hf.

Vöxtur og viðgangur Bakkavarar hefur vakið verðskuldaða athygli og fyrirtækið hefur á stuttum tíma áunnið sér traust og virðingu. Strax á upphafsárunum vakti það athygli mína að þetta litla fiskvinnslufyrirtæki tók framleiðslumál sín sérstaklega traustum tökum og var óneitanlega brautryðjandi í gæðastjórnun hér á landi þegar það var með þeim fyrstu sem tók upp vottað ISO gæðakefi.

Útrás Bakkavarar hófst á árinu 1997 með stofnun framleiðslufyrirtækis í Frakklandi, sem síðan var fylgt eftir með fjárfestingum í Svíþjóð, Póllandi, Bretlandi, Þýskalandi og Finnlandi. Nýleg kaup Bakkavarar Group hf. á breska fyrirtækinu Katsouris Fresh Foods hefur þó vakið mesta og mjög svo verðskuldaða eftirtekt. Um er að ræða stærstu kaup Íslendinga á erlendu fyrirtæki og um leið ein stærsta fjárfesting erlendra fjárfesta hér á landi því kaupverðið er að hluta til greitt með hlutabréfum í Bakkavör Group. Stjórnendur Bakkavarar hafa með þessum viðskiptum brotið blað í íslenskri viðskiptasögu í fleiri en einum skilningi. Bakkavör er með þessu komin í hóp stærstu fyrirtækja landsins með um 1.750 starfsmenn og áætlaða veltu upp á 20 milljarða króna á næsta ári.

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa stýrt þessari ævintýralegu uppbyggingu af festu og myndugleik og þeir eru því vel að því komnir að hljóta Viðskiptaverðlaunin árið 2001.

Frumkvöðull ársins 2001

Frumkvöðull ársins 2001 er Arngrímur Hermannsson, stjórnarformaður Íslenskra ævintýraferða. Íslenskar ævintýraferðir urðu til fyrir réttu ári þegar fjögur fyrirtæki sem sinntu afþreyingu í ferðaþjónustu á Íslandi sameinuðust í eitt. Fyrirtækið ræður yfir ofurjeppum á axlarháum blöðrudekkjum, vélsleðum og snjóbílum. Auk þess er í flota fyrirtækisins að finna átta hjóla trukka með húsi þar sem 50 farþegar geta setið í makindum og upplifað akstur á jökli. Með viðamiklu neti undirverktaka geta Ævintýraferðir flutt 300-600 farþega í einu í 25-50 ferðum. Til viðbótar þessu á fyrirtækið fjallaskála og bækistöðvar á nokkrum stöðum á hálendinu.

Eitt grundvallaratriði þess að efla ferðaþjónustuna er að lengja ferðamannatímann, einkum með því að nýta sérstöðu vetrarferða. Íslendingar hafa fyrir nokkru uppgötvað undraveröld hálendisins að vetri til og erlendum gestum finnst ekki síður mikið til þess koma. Þar er boðið upp á einstæða undraveröld sem þeim býðst ekki heima fyrir. Ekki er verra að mörgum finnast þessar ferðir nokkur manndómsraun og verðugt umfjöllunarefni þegar heim kemur. Arngrímur Hermannsson hefur verið brautryðjandi í þessum ferðum og er því sannkallaður frumkvöðull.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta