Hoppa yfir valmynd
14. desember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

8. - 14. desember 2001

Fréttapistill vikunnar
8. - 14. desember 2001


Grípa þarf til aðgerða til að lækka útgjöld vegna lyfjanotkunar

Þrátt fyrir aðgerðir undanfarinna ára til að halda aftur af auknum útgjöldum almannatrygginga hafa lyfjaútgjöld þeirra aukist ár frá ári. Aukningin er þannig 31% á föstu verðlagi síðan 1996 miðað við vísitölu neysluverðs 219,5 stig árið 2001, eða 6,2% á ári að meðaltali. Miðað við spá sem gerð var fyrir nokkru var reiknað með að útgjöld almannatrygginga vegna lyfjakostnaðar myndu aukast um 5,2% frá þessu ári til hins næsta, eða í 5.833 m.kr. Miðað er við þessa upphæð í fjárlögum næsta árs, eins og þau liggja fyrir. Nú er hins vegar fyrirsjáanlegt að þessi upphæð muni ekki duga nema gripið verði til sparnaðarráðstafana. Hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og landlæknisembættinu hefur að undanförnu verið skoðað hvaða leiðir eru færar í þessu skyni. Aðgerðir sem helst koma til greina við að halda aftur af kostnaðaraukningu eru hækkun á lágmarks og hámarksupphæðum fyrir hverja lyfjávísun, líkt og ítrekað hefur verið gert áður og hugsanlega fella niður greiðsluþátttöku í einhverjum lyfjum eða flytja milli greiðsluflokka. Þetta eru aðgerðir sem skila strax árangri. Hins vegar hefur verið rætt um að taka upp viðmiðunarverðskrá lyfja með sambærileg meðferðaráhrif. Með því að taka upp viðmiðunarverðskrá fyrir lyf með sambærileg meðferðaráhrif myndi greiðsluþátttaka almannatrygginga í þeim t.d. miðast við lægsta verð sambærilegra lyfja og kaupandi yrði þá að greiða mismuninn ef dýrara lyf er valið á sama hátt og nú tíðkast um samheitalyf. Svona greiðsluregla er umdeild og hefur Læknafélag Íslands þegar lýst andstöðu sinni við hugmyndina. Engin þjóð hefur farið út á þessa braut svo vitað sé og ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hér enn sem komið er. Hér er þó um mikla sparnaðarmöguleika að ræða fyrir almannatryggingar ef læknar geta valið að nota ódýrasta kostinn þegar sambærileg meðferðaráhrif er valkostur.
MEIRA...

Stefnt að samstarfssamningi læknadeildar HÍ og FSA um kennslu læknanema
Forseti læknadeildar Háskóla Íslands hefur hug á að gera samstarfssamningi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um kennslu læknanema og í tengslum við það er vilji til þess að koma á fót kennarastöðum við FSA. Þetta kom fram í ávarpi Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ársfundi sjúkrahússins sem haldinn var í vikunni. Ráðherra lýsti ánægju með þessi áform sem hann sagði styrkja FSA í sessi sem háskólasjúkrahús. Ráðherra sagðist vita af áhyggjum stjórnenda sjúkrahússins af fjárhagsstöðu þess og ítrekaði jafnframt þá skoðun sína að grunnheilbrigðisþjónustan megi ekki líða vegna erfiðra efnahagsaðstæðna.
RÆÐAN...

Samþykkt lagafrumvarpa á Alþingi
Samþykkt var á Alþingi í dag (14. des.) frumvarp um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990 með síðari breytingum. Frumarpið fjallar um starfsemi og þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar. Einnig var í dag samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar, sem varðar forgangsröðun verkefna o.fl.




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
14. desember 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta