Hoppa yfir valmynd
14. desember 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra á 90 ára afmæli Lögmannafélags Íslands 11.desember 2001

Ávarp ráðherra á 90 ára afmæli Lögmannafélags Íslands
11.desember 2001




Hr. formaður LMFÍ,
Góðir lögmenn og aðrir gestir

Það er mér mikil ánægja að eiga aðild að þessum afmælisfagnaði Lögmannafélags Íslands sem nú fagnar því að 90 ár eru að baki í sögu þess.

Það er ljóst að mörgum þykja 90 ár ekki langur tími í eilífðinni og alls ekki nægur til þess að skapa lögmannastéttinni varanlegan sess í tíma og eiflífð og því hefur verið leitað með logandi ljósi að lögmönnum í fornsögum okkar og miðaldabókmenntum. Og ég hef það fyrir satt að fyrsti íslenski lögmaðurinn sé fundinn! Hann fannst í Njálu og hét Eyjólfur Bölverksson og var sá í bókinni góðu talinn "mestur lögmaður í Vestfirðingafjórðungi". Sú samanburðarfullyrðing segir okkur líka að a.m.k. þar í fjórðungi hafi væntanlega ýmsir smærri spámenn lagt fyrir sig lögmennsku.

Ég hef spurt mig þeirrar spurningar hvort Eyjólfur Bölverksson myndi hafa fengið aðild að Lögmannafélagi Íslands í dag. Það er vissulega margt sem mælir því í gegn.

Honum var að góðum miðaldasið bannað að taka gjald fyrir lögmennsku sína, en gerði það þó, á sama hátt og lögmenn í ríki Franka ætluðust til þess að þóknun fyrir störf þerra væri laumað í vasa aftan á lögmannsskikkjunni og mun reyndar enn eima eftir af því í klæðaburði þarlendra lögmanna. Eyjólfur hafði ekki lokið embættisprófi frá Háskóla Íslands, hann hafði ekki lokið málflutningsnámsskeiði né undirgengist flutning prófmála, hann hafði ekki opna stofu fyrir almenning, hann hafði ekki starfsábyrgðartryggingu og þannig mætti áfram telja.

En gamanlaust er það vafalaust, að margir hafa haft lögmennsku fyrir náungann, - formlega eða óformlega, - að aukastarfi hér á landi á fyrri öldum, þar sem margvíslegar málaþrætur komu til dóms á héraðsþingum sem og á Alþingi. Einhvers staðar verðum við að byrja sögu lögmannastéttarinnar og mér finnst Eyjólfur ekki vera verri en hver annar til þess að fá nafn sitt skráð á fyrstu blaðsíðu hennar, jafnvel þótt hann kunni að vera uppdiktuð sögupersóna sem höfundur Njálu setti í rit sitt eftir fyrirmyndum sem hann þekkti.

Hvað sem miðöldunum líður skal ég ekki gera lítið úr þeim ágætu mönnum, sem fyrstir tóku að sér lögmennsku, - í nútímaskilningi, - á 19. öldinni og heiðra vil ég minningu þeirra sem höfðu frumkvæði að stofnun félags ykkar 1911, þeirra Eggerts Claessen og Sveins Björnssonar. Ég hef það fyrir satt, að félag ykkar og stéttarvitund félagsmanna hafi fljótlega orðið íslensku réttarfari og réttlæti öllu til mikilla framfara og blessunar, þar sem lögmenn hafi sameinast um það með vönduðum málflutningi, að auðvelda dómurum að skera úr um kjarna deilumála. Þar með var látið af þeim leiða ósið, sem löngum hafði tíðkast í málaþrasi hérlendis, að menn reyndu jafnan að spilla máli andstæðingsins með því að finna einhverja formgalla á því eða með því að halda uppi málatilbúnaði um alls kyns aukaatriði, þannig að flækjukúnstin skipti að lokum meira máli um úrslit máls en málstaðurinn. Slíkar þrætur gátu staðið í áratugi eins og t.d. "kríu-málið" fræga, sem vatt upp á sig endalausum réttarfarsflækjum fyrir það eitt, að nafnið"Kristian" hafði í einu málsskjala verið misskrifað eða mislesið sem "krian".

Það er mikilvægt fyrir allt líf þjóðarinnar í þessu landi að dómstólar og réttarfar sé með góðu móti og starf lögmanna er þar afar nauðsynlegur þáttur . Lögmenn eru þannig einn af þeim hyrningarsteinum réttarríkisins sem traust samskipti manna innbyrðis og manna og yfirvalda byggjast á.

Lögmenn njóta hér á landi almennrar virðingar og er það vel. Svo virðist ekki tíðkast alls staðar, a. m.k. ef dæma má af þeim sögum sem af stéttinni fara í öðrum ríkjum og jafnvel á öðrum tilverustigum.

Ég hef til dæmis heyrt óstaðfesta frásögn frá Himnaríki af því tilviki að svo bar við, að páfi nokkur og háæruverðugur formaður ónefnds lögmannafélags létust báðir samdægurs og urðu samferða til Himnaríkis. Þeim var þar vel tekið af Pétri lyklaverði og bauðst hann til þess að vísa þeim til framtíðarsamastaðar.

Fyrst vísaði hann páfanum á spartanskt herbergi. Þar var einn beddi og róðukross á vegg, en fátt annara hluta. Síðan héldu þeir Pétur og lögmaðurinn áfram unz þeir komu að stóru og skrautlegu einbýlishúsi , glæsilega búnu af húsgögnum og með fjölda þjónustufólks á stjái. " Þetta er bústaður þinn" , sagði Pétur. Lögmaðurinn var hvumsa og fullur grunsemda um að hér hefði lyklaverðinum orðið á í messunni , sagði hann við Pétur: "Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, - er það ekki páfinn sem á að búa hér?". " Nei, blessaður vertu", sagði Pétur. " Hér er allt fullt af páfum, en þú ert fyrsti lögmaðurinn sem við fáum inn."

Önnur saga sem staðfestir þessa að nokkru, er frásagan af því þegar þeir Drottinn og Myrkrahöfðinginn áttu í deilu og Drottinn hótaði því að lokum að fara í mál til þess að ná fram réttlátri lausn málsins. "Og hvar ætlar þú sosum að finna lögmennina?", sagði sá svarti.

Ég nefndi það áðan að starf lögmannsins er afar þýðingarmikið fyrir samfélagið. Svo er einnig með störf dómstólanna og störf annarra þeirra sem halda hér uppi lögum og reglu. Það kemur oft í hlut minn að velja fólk til ábyrgðarstarfa á þessu sviði og er þar um erfitt hlutverk að ræða. Í dag glími ég t.d. við að velja þrjá nýja sýslumenn úr stórum hópi umsækjenda, en þrjú sýslumannsembætti verða laus um næstu áramót, þar eð núverandi sýslumenn fara á eftirlaun. Það er vissulega ánægjulegt, þótt það sé einnig erfitt, að velja úr stórum hópi milli jafn hæfra umsækjenda og hér um ræðir. Með því móti verða embættin vel mönnuð. Ég hef einnig þurft að taka erfiðar ákvarðanir við val í dómaraembætti, sem minnir mig á söguna af einum kollega mínum, sem vakinn var upp með símhringingu um miðja nótt og í símanum var þekktur lögmaður, sem sagði umbúðalaust:

"Hann var að deyja í gærkvöldi hann Sigurpáll hæstaréttardómari. Ég vildi bara nefna það strax , að ég vil fá að koma í hans stað". Kollega mínum brá nokkuð við þessi tíðindi og samtalið í heild, en þegar hann loks jafnaði sig, svaraði hann rólega: " Þú gerir bara út um þetta við útfararþjónustuna, væni minn."

Hr. formaður, góðir áheyrendur.

Þegar ég var minnt á þessi tímamót á dögunum, fannst mér vel til valið að ráðuneytið ætti þátt í hátíðahöldum af þessu tilefni. Við önnur tímamót í sögu félagsins færði ráðuneytið því verkið: "Réttarstaða lögmanna", - verk sem lögmenn höfðu sjálfir skapað með þrástöðum sínum í dómsal Hæstaréttar. Við í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu höfum átt gott og náið samstarf við Lögmannafélag Íslands um langa tíð og með starfi okkar að löggjafarmótun og reglusetningu höfum við lagt lögmönnum til andlegt fóður í áranna rás. Mér fannst nokkur vel valið að bæta í þetta skiptið við fljótandi fóðri til þess að skola því andlega á réttar heilastöðvar. Hinu fasta fóðri sér félagið fyrir, enda tel ég að vasinn aftan á lögmannsskikkjunni hljóti að hafa farið stækkandi á þeim velmegunartímum sem við höfum átt að undanförnu.

Ég ítreka hamingjuóskir mínar til félagsins og til lögmanna landsins á þessum tímamótum og saman skulum við starfa að því að efla hið íslenska réttarríki.

Ég bið viðstadda að lyfta glösum og skála fyrir bjartri framtíð þessa félags og íslenskrar lögmannastéttar. Um leið skulum við strengja þess heit að mæta tvíefld í næsta stórafmæli félagsins og ég þakka fyrirfram fyrir boðið til þeirra hátíðahalda.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta