Um vald vígslumanna til hjónavígslu erlendis
UM VALD
VÍGSLUMANNA TIL HJÓNAVÍGSLU ERLENDIS
I. Hverjir eru vígslumenn að íslenskum lögum og hvaða
heimildir hafa þeir til að framkvæma hjónavígslu erlendis?
Samkvæmt íslenskum lögum eru kirkjulegir vígslumenn þessir: Prestar þjóðkirkjunnar og prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga sem fengið hafa löggildingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en borgaralegir vígslumenn eru þessir: sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.
Sú meginreglan gildir að aðeins íslensk stjórnvöld, kirkjuleg og borgaraleg, eru bær til að annast hjónavígslur á Íslandi og vald þeirra nær aðeins til þess að annast hjónavígslur á Íslandi, en ekki í útlöndum. Frá þessu eru þó undanþágur í báðar áttir.
Í hjúskaparlögum nr. 31 1993 segir í 4. mgr. 17. gr. að dóms- og kirkjumálaráðuneytið geti löggilt íslenska presta til að framkvæma hjónavígslu erlendis, og skv. 1. mgr. 19. gr. geta tilteknir starfsmenn utanríkisþjónustu Íslands, sem hafa diplómatíska stöðu eða stöðu ræðismanns, fengið slíkt leyfi að höfðu samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Ekki hefur til þess komið að veita starfsmönnum utanríkisþjónustunnar slíka heimild.
Eftir bréfaskipti við yfirvöld í norrænum ríkjum og á Bretlandi, hafa prestar þjóðkirkjunnar, sem þangað hafa verið sendir til fastrar þjónustu, fengið heimild til að annast hjónavígslur þar, en meðal skilyrðanna er að a.m.k. annað hjónaefna tilheyri söfnuði hans þar/sé íslenskur ríkisborgari. Hins vegar hefur ekki tíðkast að veita íslenskum vígslumönnum leyfi til einstakrar athafnar erlendis (ad hoc), þótt lögin girði ekki fyrir að slíkt leyfi kunni að verða veitt. Slíkt verður aðeins ákveðið með heimild frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og að höfðu samráði þess við erlend kirkjuyfirvöld, þaðan sem þarf að afla leyfis í hverju einstöku tilviki. Í þeim tilvikum væri um að ræða athafnir, sem fela í sér fullgildar borgaralegar athafnir.
Hins vegar er ekki ótítt að "blessanir" fari fram yfir brúðhjónum erlendis, sem eru "táknræn" brúðkaup, en þær hafa ekki réttaráhrif sem gildar borgaralegar athafnir. Þetta á sér einkum stað þegar hjónaefni eru sitt í hvoru trúfélaginu, að þá fara oft fram tvær "giftingar", en aðeins önnur hjónavígslan hefur réttaráhrif sem fullgild hjónavígsla.
Samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar gilda ákvæði íslensks réttar um hjúskaparskilyrði og könnun þeirra, svo og hjónavígslur, sem framkvæmdar eru af íslenskum vígslumönnum erlendis.
Hvað snertir sýslumenn og löglærða fulltrúa þeirra, nær vald þeirra aðeins til viðkomandi umdæmis. Í tengslum við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði 1. júlí 1992 var endanlega hætt að veita sýslumönnum leyfi til að gefa saman hjón utan umdæmis, en áður hafði stöku sinnum verið fallist á slík leyfi, enda var þá jafnan um að ræða náinn ættingja, s.s. barn eða systkini. Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra geta ekki fengið leyfi til að framkvæma hjónavígslu erlendis.
Með orðalaginu "hér á landi" er átt við íslenska lögsögu. Íslensk lögsaga í þessu sambandi er landið sjálft, hafsvæðið út að 12 mílna landhelgi og íslensk lofthelgi.
Ráðuneytið fékk eitt sinn fyrirspurn hvort presti þjóðkirkjunnar væri heimilt að gefa saman íslensk hjónaefni í flugvél á flugi. Því var svarað til að ef flugvélin væri stödd innan loftsúlu upp af íslensku landsvæði eða landhelgi teldist hún í íslenskri lögsögu, og þar hefði presturinn ótvíræða heimild til að framkvæma hjónavígslu. Hjónavígslan átti sér síðan stað innan þessarar loftsúlu.
II. Hvaða erlendir vígslumenn hafa heimild til hjónavígslu á Íslandi?
Í 20. gr. hjúskaparlaganna segir að heimilt sé með samningi við erlent ríki að prestar frá viðkomandi ríki eða útsendir ræðismenn þess hér á landi, er hafi diplómatíska stöðu, geti framkvæmt hjónavígslu hér á landi, enda sé a.m.k. annað hjónaefna ríkisborgari þess ríkis.
Hér gildir sem fyrr, að erlendum vígslumönnum er óheimilt að annast hjónavígslu, nema að hið erlenda ríki hafa gert samninga við íslensk stjórnvöld um einhverja tiltekna hjónavígslu eða um að tiltekinn vígslumaður fái almenna heimild til að gefa saman hjónaefni.
Ekki hefur verið leitað eftir slíkri hjónavígsluheimild til ráðuneytisins.
III. Hvaða gildi hafa hjónavígslur sem íslenskir vígslumenn hafa framkvæmt erlendis án leyfis?
Stjórnsýsluréttur er fræðigrein sem fjallar um ýmsar athafnir og ákvarðanir hins opinbera eða sem opinbert leyfi þarf til. Hjónavígslur falla þar undir. Oft er greint á milli ógildra og ógildanlegra athafna.
Án þess að fara nánar út í þessa sundurgreiningu er rétt að greina frá því að sumir annmarkar valda því að hjónavígsla er ógild frá upphafi, og verður ekki unnt að bæta úr því síðar. Þannig háttar til ef lögsöguvaldið skortir.
Atvik geta líka verið með öðrum hætti, þannig að unnt er að bæta úr. Annmarkarnir geta ennfremur verið slíkir að þeir teljist ekki mjög alvarlegir eða aðstæður teljast vera mjög sérstæðar. Í svona tilvikum getur ráðuneytið lýst hjónaband gilt samkvæmt beinni heimild í 2. málsgr. 25. gr. hjúskaparlaga.
Ráðuneytið hefur í eitt skipti lýst hjónaband gilt eftir á. Þar var um að ræða tilvik þar sem forstöðumaður trúfélags gaf saman hjónaefni, en annað þeirra kom frá Nýja Sjálandi ásamt fylgdarliði. Viðkomandi forstöðumaður var þá ekki búinn að fá í hendur löggildingu til starfans, en afgreiðsla á erindi hans hafði dregist nokkuð í meðförum hjá stjórnvöldum, og viðkomandi forstöðumaður hafði staðið í þeirri trú að leyfi hans yrði afgreitt fyrir helgina sem hann framkvæmdi hjónavígsluna, en það var í rauninni ekki afgreitt fyrr en eftir helgina. Sama getur komið upp ef t.d. mistök verða um spurningar til hjónaefna og svör við þeim.