Úrskurður umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar
Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir hefur í dag úrskurðað um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.
Umhverfisráðuneytinu bárust 122 kærur vegna úrskurðar skipulagsstofnunar frá 1. ágúst sl. um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Niðurstaða umhverfisráðherra er sú að úrskurður skipulagsstofnunar er felldur úr gildi. Fallist er á fyrirhugaða framkvæmd að uppfylltum 20 skilyrðum sem gerð er nánari grein fyrir í úrskurðinum. Skilyrði minnka verulega umhverfisáhrif virkjunarinnar frá tillögum framkvæmdar aðila sem sett voru fram í matsskýrslu.
Hér verða rakin þau veigamestu. Framkvæmdaraðila, Landsvirkjun, er gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu, Laugarfellsveitu og Bessastaðaárveitu og Gilsárvötn. Framkvæmdaraðila er einnig gert að falla frá hluta Hraunaveitu, þ.e. framkvæmdum við Sultarranaár- og Fellsárveitu. Með þessum breytingum er svæðinu í kringum Snæfell hlíft við raski vegna framkvæmda. Orkugeta Kárahnjúkavirkjunar minnkar nokkuð vegna þessa, eða um 4%. Til að vega upp á móti minni orkuvinnslugetu er framkvæmdaraðila heimilt að breyta hönnun aðrennslisganga frá Hálslóni að stöðvarhúsi í Fljótsdal. Þá er fyrirkomulagi á yfirfalli úr Hálslóni í Desjarárdal hafnað og gerð krafa um að yfirfallsvatn verði leitt í Hafrahvammagljúfur. Þannig er Desjarárdal hlíft og dregið úr umhverfisáhrifum á Hafrahvammagljúfur. Framkvæmdaraðila eru sett ýmis skilyrði til að minnka jarðvegsrof og áfok úr Hálslóni. Þá er framkvæmdaraðila gert að lækka klapparhaft ofan Lagarfossvirkjunar til mótvægis við aukið vatnsmagn vegna virkjunarinnar.
Til viðbótar því sem að ofan greinir eru sett fjölmörg skilyrði sem framkvæmdaraðili þarf að uppfylla vegna rannsókna og vöktunar á náttúru og lífríki.
Fréttatilkynning nr. 20/2001
Umhverfisráðuneytið