15. - 21. desember 2001
Fréttapistill vikunnar
15. - 21. desember 2001
Bætur almannatrygginga hækka 1. janúar
Bætur almannatrygginga hækka um 8,5% frá 1. janúar næst komandi. Umönnunargreiðslur barna hækka hins vegar um 8,72% frá sama tíma. Bæturnar hækka í samræmi við lög um almannatryggingar nr. 117/1993 og samkvæmt lögum um félagslega aðstoð nr. 118/1993. Hækkunin nú þýðir m.a. að full tekjutrygging ellilífeyrisþega hækkar úr 31.679 kr. í 34.372 kr. og full tekjutrygging örorkulífeyrisþega úr 32.566 kr. í 35.334 kr. Hámarksbætur öryrkja með fulla tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót hækkar þannig úr 80.199 krónum í 87.015 krónur á mánuði.
Vígsla 1. hæðar D-álmu Sjúkrahúss Suðurnesja
Fyrsta hæð D-álmunnar við Sjúkrahús Suðurnesja var vígð í dag (21. desember). Á hæðinni sem er tæpir 950 fm. verða skrifstofur sjúkrahússins, aðstaða til endurhæfingar sjúklinga og rannsóknarstofur. D-álman er samtals um 2.800 fermetrar á þremur hæðum. Innréttingu annarrar hæðar er lokið. Þar verða hjúkrunarrými fyrir 28 sjúklinga og er stefnt að því að taka þau í notkun um mitt næsta ár. Þriðja hæð D-álmunnar er ófrágengin og ekki liggur fyrir hvenær hún verður tekin í notkun. Framkvæmdir við byggingu D-álmunnar hófust árið 1997. Áætlaður heildarkostnaður við byggingu hennar er um 500 milljónir króna. Heildarkostnaður vegna þeirra framkvæmda sem þegar er lokið nemur nú tæpum 400 milljónum króna.
Viðræður um framlengingu samninga um reynslusveitarfélög á lokastigi
Undanfarna mánuði hafa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti unnið að gerð þjónustusamninga við Akureyrarbæ og Hornafjarðarbæ um framhald reynslusveitarfélagaverkefna sem umrædd sveitarfélög hafa annast undanfarin ár. Annars vegar er um að ræða verkefni á sviði heilbrigðis- og öldrunarmála og hins vegar málefni fatlaðra. Samningunum er ætlað að gilda til næstu fimm ára eða frá 1. janúar 2002 til ársloka 2006. Aðilar eru jafnframt sammála um mögulega endurnýjun umræddra samninga til annarra fimm ára. Samningar eru á lokastigi og stefnt er að því að ljúka þeim fyrir 15. febrúar nk. Allur rekstur heilsugæslu, öldrunarþjónustu og málefna fatlaðra verður frá næstu áramótum áfram á hendi og ábyrgð sveitarfélaganna.
Undirritun þjónustusamnings um rekstur Heilsustofnunar NLFÍ
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í dag (21. desember) nýjan þjónustusamning við stjórnendur Náttúrulækningafélags Íslands um rekstur Heilsustofnunar NLFÍ. Samningurinn kemur í stað eldri samnings sem gerður var í ársbyrjun 1999. Nýi samningurinn felur í sér að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið kaupir endurhæfingarþjónustu af Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, en endurhæfingarþjónustan þar er hluti af heildarskipulagi endurhæfingarmála í landinu. Annars vegar er um að ræða sérhæfða endurhæfingu, t.d. eftir slys, aðgerðir og aðra læknismeðferð. Hins vegar er um að ræða almenna endurhæfingu vegna ýmissa sjúkdóma, öldrunar o.fl. Gert er ráð fyrir 40 rúmum fyrir sérhæfða endurhæfingu í stað 30 áður en rúmum fyrir almenna endurhæfingu fækkar úr 90 í 80. Til að sinna verkefnum sem samningurinn kveður á um mun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið beita sér fyrir því að árlegar fjárveitingar til starfseminnar verði 330.500.000 kr. miðað við fjárlög ársins 2002. Samningurinn gildir til ársloka 2004.
Nýjar skurðstofur teknar í notkun við Landspítala - Háskólasjúkrahús
Tvær nýjar skurðstofur voru teknar í notkun við Landspítala - Háskólasjúkrahús í Fossvogi í vikunni. Framkvæmdir hófust í júní síðastliðnum og eru stofurnar nú fullbúnar. Að auki voru þrjár eldri skurðstofur stækkaðar og ein skurðstofa lögð niður. Allur tæknibúnaður rafmagns- og loftræstikerfa var endurnýjaður auk tækjabúnaðar á stofunum sjálfum. Heildarkostnaður vegna framkvæmda og tækjabúnaðar er um 100 milljónir króna.
http://www.rsp.is/frettir/frettatil/skurdstofur1201.htm...
Niðurstöður nefndar um ferliverk við Landspítala - háskólasjúkrahús
Nefnd sem forstjóri Landspítala - Háskólasjúkrahúss skipaði í haust hefur skilað skýrslu um ferliverk í starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Með ferliverkum er átt við alla meðferð sjúklinga við sjúkrahúsið sem krefst ekki innlagnar. Í skýrslunni er m.a. lagt til að LSH stefni að frekari uppbyggingu ferliverkastarfsemi vegna fjölgreinameðferðar, þ.e. þjónustu við sjúklinga þar sem læknar fleiri en einnar sérgreinar eða fleiri en ein starfsstétt koma að meðferðinni á sjálfstæðan hátt. Þá verði teknar upp viðbótargreiðslur í stað núverandi greiðslufyrirkomulags vegna ferliverka. Sérstök greiðsla fyrir ferliverk verði viðbótargreiðsla frá LSH sem geti eingöngu runnið til þess starfsmanns sem ber frumábyrgð á meðferð sjúklings. Helstu tillögur ferliverkanefndar og skýrsla nefndarinnar í heild er aðgengileg á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahúss.
NÁNAR...
21. desember, 2001