22. - 28. desember 2001
Fréttapistill vikunnar
22. - 28. desember 2001
Hlutur einstaklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu eykst um áramótin - réttur til endurgreiðslna verður rýmkaður Þann 1. janúar 2002 taka gildi reglugerðir sem hafa í för með sér breytingar á kostnaðarhlut einstaklinga sem leita til heilsugæslustöðva, á hlut sjúkratryggðra sem leita til sérfræðilækna og á hlutdeild einstaklinga í lyfjakostnaði. Samtímis taka gildi nýmar reglur um greiðslur vegna kostnaðar við læknisheimsóknir langveikra barna og tekjulágra fjölskyldna. Reglur þessar rýmka endurgreiðslurétt beggja hópa og lækka útgjöld langveikra barna vegna lækniskostnaðar. NÁNAR... |
Stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur sent frá sér greinargerð til stafsmanna sinna vegna fjárhagsvanda sjúkrahússins. Í greinargerðinni segir meðal annars að stjórnvöld og stjórnendur spítalans glími sameiginlega við erfiðand vanda. Ljóst sé að fjárhagsleg staða sjúkrahússins og framlög til rekstursins á fjárlögum ársins 2002 verði til þess að ekki takist að veita óbreytta þjónustu á næsta ári. Fram kemur að sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík sem ákvörðun var tekin um snemma árs árið 2000 sé þegar farin að skila hagræðingu og bættri þjónustu við sjúklinga. Þess verði vart í ríkara mæli á næsta ári komi takmörkuð framlög ekki í veg fyrir framhald á sameiningu sérgreina sem ákveðin var eftir stofnun Landspítala - háskólasjúkrahúss. Stjórnarnefndin leggur áherslu á að þær aðhaldsaðgerðir sem grípa þarf til nú stöðvi ekki þá hagræðingu og bætta þjónustu sem sameining sjúkrahúsanna sé farin að skila.
NÁNAR...
Rauði kross Íslands gefur Blóðbankanum fullkominn blóðsöfnunarbíl
Rauði kross Íslands og Blóðbankinn skrifuðu í vikunni undir samkomulag um afhendingu á fullkomnum blóðsöfnunarbíl sem er væntanlegur til landsins næsta sumar.
Með tilkomu þessa færanlega blóðsöfnunartækis er öryggi í blóðbankaþjónustu stóraukið, ekki síst ef bregðast þarf skyndilega við stórslysum eða annarri vá einhvers staðar á landinu. Nýja tækið er 13,5 metra langur vagn, búinn fullkomnustu tækjum til blóðgjafar og getur annað 50 - 100 blóðgjöfum á venjulegum vinnudegi og mun fleirum í neyðartilvikum. Gert er ráð fyrir að þriðjungur þess blóðs sem safnast á landinu í framtíðinni komi í gegnum þennan færanlega blóðbanka. Heildarkostnaður við kaup á bílnum er um 31 milljón króna. Rauði krossinn leggur til 26 milljónir króna sem félagið hefur safnað í þessu skyni frá árinu 1996. Stjórnvöld leggja fram fimm milljónir króna.
28. desember, 2001