Málefni upplýsingasamfélagsins - stefnumótun
Málefni upplýsingasamfélagsins - stefnumótun
8. janúar 2002
Fjögur ár eru síðan samþykkt var í ríkisstjórn að efna skyldi til sérstaks þróunarverkefnis í stjórnsýslu ríkisins um málefni upplýsingasamfélagsins. Samþykktin var gerð samkvæmt tillögum sem fram komu í skýrslu er bar heitið Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, en skýrslan var unnin af fjölmennri nefnd sem þáv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði og Tómas Ingi Olrich alþingismaður leiddi. Í skýrslunni var sett fram það markmið að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar, en jafnframt voru í henni sett fram eftirtalin fimm meginmarkmið:
1. Landsmenn hafi greiðan aðgang að uppýsingasamfélaginu. Kostir þess verði nýttir til þess að efla lýðræði og auka lífsgæði, til hagsbóta fyrir almenning og íslenskt atvinnulíf. Upplýsingatækni verði beitt á öllum sviðum, hvort sem er við nýsköpun, heilbrigðismál, vísindi, listir og menningu eða á öðrum sviðum daglegs lífs.
2. Tryggt verði fullt jafnræði milli opinbers reksturs og einkareksturs á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar. Stjórnvöld auðveldi, með hjálp upplýsingatækninnar, aðgang að opinberum upplýsingum og þjónustu, til að jafna stöðu einstaklinga og fyrirtækja óháð búsetu eða efnahag.
3. Upplýsinga- og fjarskiptatækni verði virkjuð til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, auka framleiðni, örva atvinnu og fjölga möguleikum til útflutninga á íslensku hugviti.
4. Menntakerfið lagi sig að breyttri þjóðfélagsmynd og miði almenna menntun og símenntun við kosti upplýsingasamfélagsins um leið og það stendur vörð um tungu okkar og menningu.
5. Löggjöf, reglur og vinnubrögð verði endurskoðuð með tilliti til upplýsingatækni til að að örva tæknilegar framfarir og til að vernda réttindi einstaklinga og fyrirtækja.
Tillögur nefndarinnar gerðu ráð fyrir að forsætisráðuneytið færi með yfirstjórn þeirra þátta sem lúta að heildarsýn yfir framkvæmd stefnunnar, bæri ábyrgð á samræmingu milli ráðuneyta, og mati á árangri og heildarendurskoðun stefnunnar. Skipuð var sérstök verkefnisstjórn, sem vistuð er hjá forsætisráðuneyti en í eiga sæti fulltrúar forsætis-, samgöngu-, iðnaðar-, fjármála- og menntamálaráðuneyta, til að hafa umsjón með framkvæmd stefnunnar. Jafnframt hefur verkefnisstjórnin gert tillögur til ríkisstjórnarinnar um fjárveitingar til verkefna á vegum ráðuneytanna sem unnin eru sem liður í framfylgd stefnunnar.
Verulegum fjármunum hefur verið veitt til að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Bein (ný) framlög til verkefna nema um 700 m.kr. á því 5 ára tímabili sem stefnan nær til, en að mótframlögum ráðuneytanna meðtöldum má gera ráð fyrir að vel á annan milljarð króna hafi verið veitt sérstaklega til þess að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins. Forsætisráðuneytið hefur leitað eftir því við fjármálaráðuneytið að tekið yrði saman yfirlit yfir ráðstöfun framlaganna og er sú vinna á lokastigi.
Auk framangreinds hefur verkefnisstjórn um málefni upplýsingasamfélagsins verið vettvangur samráðs milli ráðuneytanna um ýmis viðfangsefni sem tölvu- og upplýsingatæknimálum tengjast, auk þess sem hún hefur sinnt margskonar erlendu samstarfi sem óhjákvæmilegt hefur reynst að taka þátt í, t.d. á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, Eystrasaltsráðsins og Evrópusambandsins. Hagstofa Íslands fær sérstaka hækkun á fjárlögum 2002 til að sinna og samræma upplýsingagjöf í tengslum við þetta samstarf.
Árið 2002 er hið síðasta sem stefnan, sem samþykkt var árið 1996, nær til og því lýkur verkefninu í lok árs 2002 að óbreyttu. Taka þarf ákvarðanir um lok eða framhald verkefnisins og eftirfylgni með því, og eftir atvikum hvernig skipa eigi þeim verkefnum sem tengjast málefnum upplýsingasamfélagsins og framfylgd stefnu stjórnvalda á því sviði.
Eftirfarandi er lagt til:
1. Gerð verði úttekt á verkefninu með aðstoð utanaðkomandi sérfræðings og stefnt að því að niðurstöður hennar liggi fyrir í marsmánuði.
2. Stjórnarflokkarnir tilnefni í nefnd sem skipuð verði af forsætisráðherra til að endurskoða stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins og gera tilögur um hvar eigi að vista málaflokkinn. Miðað verði við nefndin ljúki störfum ekki seinna en að hausti árið 2002.
3. Starfstími verkefnisstjórnar um upplýsingamál verði framlengdur til ársloka 2003, þannig að verkefnisstjórnin fái allt að einu ári til að fylgja eftir starfi sínu. Þennan tíma mætti eftir atvikum stytta ef tillögur framangreindrar nefndar gera ráð fyrir öðru.
Verkefnisstjórnin mun fjalla um og gera tillögur um forgangsröðun stærri verkefna á sviði upplýsingatækni vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2003, sem hefst senn. Hins vegar verður við það miðað að ráðuneytin sæki um minni fjárveitingar til upplýsingatækniverkefna beint til fjármálaráðuneytis og að meðferð slíkra fjárlagaerinda verði ekki aðgreind sérstaklega frá meðferð annara fjárlagaerinda ráðuneyta.
Minnisblað forsætisráðherra til ríkisstjórnar 8. janúar 2002