Fundur viðskiptanefnda Íslands og Kína
Nr. 001
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Viðskiptanefndir Íslands og Kína héldu árlegan fund sinn í Peking í gær. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Sverrir Haukur Gunnlaugsson, fór fyrir íslensku sendinefndinni. Fyrir kínversku sendinefndinni fór Sun Guangxiang, varaviðskiptaráðherra Kína.
Á fundinum kom fram að viðskipti landanna hafa aukist á síðastliðnu ári og voru ríkin sammála um að leita leiða til að efla þau enn frekar.
Fyrirhugaðar tollalækkanir í tengslum við nýlega aðild Kína að Alþjóðaviðskiptastofnuninni munu greiða fyrir þeirri þróun.
Möguleikar á gagnkvæmum fjárfestingum voru einnig ræddar. Þá tóku Kínverjar jákvætt í beiðni Íslendinga um gerð ferðamálasamnings milli landanna sem greiða mun fyrir því að kínverskir ferðamenn geti sótt Ísland heim.
Meginviðfangsefni fundarins að þessu sinni var aukið samstarf á sviði jarðhitanýtingar í Kína. Ljóst er að undirbúningsstarf sem unnið hefur verið á þessu sviði hefur skilað árangri og vænta kínversk stjórnvöld mikils af eflingu samstarfsins.
Viðskiptanefndir Íslands og Kína hittast árlega og var þetta fjórði fundur þeirra.
Shi Guangsheng, utanríkisviðskipta- og efnahagsráðherra Kína, er væntanlegur í opinbera heimsókn til Íslands dagana 2. - 5. febrúar n.k. Hann mun m.a. eiga viðræður við Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Geir Haarde, fjármálaráðherra og kynnast íslensku atvinnu- og viðskiptalífi.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. janúar 2002