Könnun á lífsleikni
Til skólameistara framhaldsskóla
Könnun á lífsleikni
Til þess að ráðuneytið geti gegnt þessu hlutverki og jafnframt stuðlað að æskilegri þróun skólamála og skólastarfs í landinu verður nauðsynlegt að afla reglubundið upplýsinga um ýmsa þætti er varða starfsemi skóla. Þetta gildir ekki hvað síst um þá þætti sem skólum hefur verið falið að útfæra og aðeins er gerð lauslega grein fyrir í aðalnámskrá og einnig um námsþætti sem teljast nýmæli í námskránni og lítil reynsla hefur fengist af. Meðal efnisþátta sem hér um ræðir má nefna almenna námsbraut, nýjar námsgreinar eins og lífsleikni, áfengis- og vímuvarnir, jafnréttisfræðslu og þjónustu við langveika nemendur.
Til þess að fá grófa mynd af stöðu þeirra þátta sem til athugunar eru hverju sinni er ætlunin að senda skólum einfalda spurningalista með ósk um að skólar veiti umbeðnar upplýsingar innan tiltekins tíma.
Gera má ráð fyrir að slíkir spurningalistar verði sendir skólum nokkuð oft í nánustu framtíð og er hér með óskað eftir góðri samvinnu við skóla í þessu efni.
Ráðuneytið hefur ákveðið að leita eftir upplýsingum um kennslu í lífsleikni svo og stöðu greinarinnar í einstökum skólum. Tilgangurinn er m. a. að stuðla að frekari þróun náms og kennslu í greininni og miðla upplýsingum til skóla almennt um mismunandi leiðir, kennsluaðferðir og námsgögn.
Í aðalnámskrá framhaldsskóla, sem kom út 1999, er skilgreind ný námsgrein, lífsleikni, en í námskrá fyrir greinina segir m. a.:
"Við útfærslu lífsleikni í skólum er mikilvægt að hafa í huga að hún kemur inn sem ný námsgrein og því eðlilegt að fyrstu árin einkennist af þróun námsgreinarinnar í skólastarfi".
Í þessu skyni sendir ráðuneytið yður hér með spurningalista og fer þess á leit að þér svarið spurningunum eftir því sem við á og sendið ráðuneytinu svörin ekki síðar en 8. febrúar nk. Listinn er sendur yður með tölvupósti sem viðhengi og er þess óskað að honum verði svarað í rafrænu formi. Prentuð útgáfa listans fylgir með bréfi þessu.
Með fyrirfram þökk fyrir greinargóð svör.
(Janúar 2002)