Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

5. - 11. janúar 2002

Fréttapistill vikunnar
5. - 11. janúar 2002



Nýskipuð samninganefnd um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur skipað nýja sjö manna samninganefnd sem hefur það hlutverk að semja við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegar þjónustu sem þar er veitt. Samninganefndin er skipuð frá og með deginum í dag og skal hafa náið samráð við ráðherra í öllum störfum sínum. Um hlutverk og starfshætti nefndarinnar er vísað til laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og laga um almannatryggingar nr. 117/1993. Formaður nefndarinnar er Garðar Garðarsson hrl.
NÁNAR...

Athugasemdir gerðar við kaup og innflutning fyrrverandi framkvæmdastjóra HTÍ á heyrnartækjum
Við endursskoðun bókhalds Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) vegna ársins 2000 komu fram atriði varðandi kaup og greiðslufyrirkomulag á vörum frá dönsku fyrirtæki, sem seldi HTÍ fullbúin heyrnartæki og varahluti í þau, sem voru þess eðlis að nýjum stjórnendum HTÍ þótti ástæða þótti til láta kanna málið frekar. Ríkisendurskoðun kannaði síðan hvernig staðið hafði verið að kaupum og innflutningi á heyrnartækjum frá ársbyrjun 1997 til maíloka 2001, en þá lét fyrrverandi framkvæmdastjóri af störfum. Ríkisendurskoðun hefur lokið athugasemdum sínum og er niðurstaða stofnunarinnar sú, að fyrrverandi framkvæmdatsjóri hafi með kaupum og innflutningi heyrnartækja um hríð hvorki virt starfsskyldur sínar og ábyrgð sem forstöðumaður ríkisstofnunar né ákvæði tollalaga, laga um virðisaukaskatt, og bókhald sbr. lög um fjárreiður ríkisins. Nánari upplýsingar um málið er að finna í greinargerð Ríkisendurskoðunar "um innflutning á heyrnartækjum og hlutum í þau á vegum Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands frá 1. janúar 1997 til 31. maí 2001. Ríkisendurskoðun hefur sent greinargerð sína til embættis ríkissaksóknara til meðferðar.
GREINARGERÐIN... (Pdf-skrá)

Þáttur húsnæðis í daggjöldum/framlögum til heilbrigðisstofnana verður skoðaður
Ákveðið hefur verið að fram fari sameiginleg athugun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins á því hvort og þá hvernig sé eðlilegt að viðurkenna þátt húsnæðis í daggjöldum/framlögum til heilbrigðisstofnana. Vinnuhópur hefur verið settur á laggirnar í þessu skyni og er miðað við að niðurstöður í málinu liggi fyrir um mitt þetta ár. Fyrir vinnuhónum fer Svanhvít Jakobsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og frá sama ráðuneyti sitja einnig Sigurður Gils Björgvinsson og Hermann Bjarnason. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins eru Hallgrímur Guðmundsson og Guðmundur Ólasson.

Landlæknir varar við skottulækningum
Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fólk sem ekki hefur heilbrigðismenntun hefur auglýst meðferð við ýmsum alvarlegum vandamálum, bæði í blöðum og með dreifibréfum. M.a. hefur verið auglýst duft (Warlocker) sem sagt er lækna ýmsa sjúkdóma, s.s. inflúensu, alnæmisveirusýkingu, blóðkrabbamein og fleira. Landlæknir vekur athygli á þessu á heimasíðu landlæknisembættisins. Hann bendir á að einungis læknar hafa leyfi til greiningar og meðferðar sjúkdóma, annað séu skottulækningar. Enn fremur segir hann: ,,Engin ástæða er til að amast við ýmsum aðferðum hjálækninga svo fremi sem ekki er verið að kasta ryki í augu fólks og villa um fyrir því, hafa af því fé, nota aðferðir sem valda aukaverkunum og beina fólki frá því að leita til hinnar venjubundnu heilbrigðisþjónustu. Ólíklegt er að fólk taki ofangreindar auglýsingar alvarlega. Eigi að síður er ástæða til að vara við þeim, enda liggur engin vitneskja um virkni að baki þeim og skaðsemi er ekki útilokuð."

Skýrslur líffæraflutninganefndar fyrir starfsárin 1999 - 2000
Líffæraflutninganefnd hefur skilað af sér skýrslum fyrir starfsárin 1999 og 2000. Er þar að finna yfirlit yfir hve margir hafa fengið ný líffæri og hvernig samstarfið við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn hefur gengið, en samningur við spítalann um líffæraflutninga var endurnýjaður í desember 2000. Með nýja samningnum færðust forrannsóknir fyrir líffæraígræðslu almennt til Íslands og jafnframt féllst Ríkisspítalinn á að greiða kostnað vegna líffæratöku á íslenskum sjúkrahúsum á sama hátt og gert er í Svíþjóð. Heildarkostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna forrannsókna, eftirlits og ígræðslna sem fram fóru á árinu 1999 var um 58,5 m.kr. en tæpar 48 m.kr. árið 2000.
SKÝRSLA 1999... (Pdf-skrá)
SKÝRSLA 2000... (Pdf-skrá)

Viðræður um rýmri inntökuheimildir í læknadeild
Viðræður standa nú yfir milli Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um aukið fjármagn samkvæmt kennslusamningi til þess að unnt verði að fjölga nýnemum í læknisfræði. Samkvæmt reglum læknadeildar eru nú teknir inn 40 nemar eftir haustpróf ár hvert samkvæmt fjöldatakmörkunum. Nú eru 53 læknanemar sem stunda grunnnám erlendis. Forseti læknadeildar Háskólans segir ákjósanlegra að gunnnám í læknisfræði sé stundað hér á landi. Hann vonast til að viðræður við menntamálaráðuneytið skili rýmri inntökuheimildum í læknadeild þannig að 48 nemar geti haldið áfram námi strax í haust eftir inntökupróf sem nú verða haldin í fyrsta skipti í júní n.k.




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
11. janúar, 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta