Málefni trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands
Samgönguráðherra, að beiðni flugmálastjóra, skipaði þann 4. janúar s.l. nefnd lögmanna og landlæknis til að gera úttekt á stjórnsýslu og opinberum yfirlýsingum trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs flugmanns.
Í nefndinni sátu Andri Árnason hæstaréttarlögmaður, Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður og Sigurður Guðmundsson landlæknir.
Niðurstaða úttektarnefndarinnar er einróma og ótvíræð.
* Útgáfa heilbrigðisvottorða og flugskírteina flugmanna er stjórnvaldsathöfn og lýtur stjórnsýslulögum. Í þessu tilfelli er um að ræða stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi flugmannsins og almennt flugöryggi og því ber að gera ríkar kröfur til óaðfinnanlegrar stjórnsýslumeðferðar.
* Flugmálastjórn og trúnaðarlækni hennar var skylt að virða ákvörðun þeirrar áfrýjunarnefndar lækna sem úrskurðaði að flugmaðurinn teldist heilbrigður og ætti rétt á flugskírteini án takmarkana. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var afdráttarlaus og fól ekki í sér neina ráðagerð um að viðkomandi flugmaður fullnægði ekki kröfum sem gerðar voru eða að skilyrða ætti heilbrigðisvottorð hans. Í skýrslu úttektarnefndarinnar segir ennfremur: "Það er niðurstaða nefndarinnar að synjun á útgáfu heilbrigðisvottorðs, að fenginni niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar, hafi ekki verið byggð á neinum rökum sem talin verða málefnaleg eða eðlileg." Því voru stjórnsýslulög brotin þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli ráðuneytisins um að mál flugmannsins yrði afgreitt í samræmi við niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar og gildandi lög og reglur.
* Stjórnsýsluúrskurður samgönguráðuneytisins um málsmeðferðina var í samræmi við stjórnsýslureglur og fól eingöngu í sér fyrirmæli til Flugmálastjórnar um framkvæmd stjórnsýsluathafnar. Ráðuneytið hafði engin afskipti af efni heilbrigðisvottorðs eða læknisfræðilegum álitamálum.
Úttektarnefndin skoðaði samskipti trúnaðarlæknisins við erlendar flugmálastjórnir sem hann gerði að umtalsefni í fjölmiðlum. Álit nefndarinnar er að svör við fyrirpurnum trúnaðarlæknisins hafi ekki ein og sér getað verið grundvöllur synjunar á útgáfu heilbrigðisvottorðs flugmannsins og jafngiltu á engan hátt ítarlegum rannsóknum og athugunum sem gerðar voru hér á landi. Í þeim kom heldur ekkert fram sem studdi staðhæfingar um að flugöryggi á Íslandi væri ekki gert jafn hátt undir höfði og í öðrum ríkjum.
Samgönguráðuneytið hefur sent Flugmálstjórn Íslands skýrslu úttektarnefndarinnar. Jafnframt hefur ráðuneytið lýst þeirri skoðun sinni að í skýrslunni felist alvarleg áminning um að stjórnsýslu Flugmálastjórnar hafi verið áfátt við útgáfu heilbrigðisvottorðs og flugskírteinis til flugmannsins. Ráðherra mun fara yfir málið í heild sinni með flugmálastjóra og óska skýringa hans og tillagna um aðgerðir í kjölfar álits úttektarnefndarinnar.
Málefni trúnaðarlæknis Flugmálastjórnar Íslands