2. - 8. febrúar 2002
Fréttapistill vikunnar
2. - 8. febrúar 2002
Samið við fimm bæklunarlækna um krossbandaaðgerðir
Samninganefnd um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu hefur gert samning við fimm bæklunarlækna hjá Læknastöðinni í Álftamýri um krossbandaaðgerðir. Undanfarin ár hafa þessar aðgerðir verið gerðar hjá sérfræðingum á læknastofum en ágreiningur hefur verið um greiðslur fyrir þær milli sérfræðinganna og Tryggingastofnunar ríkisins. Meðan deilt hefur verið um verð fyrir aðgerðirnar hafa sjúklingar þurft að greiða kostnað vegna þeirra að fullu. Nú munu þeir einungis greiða það gjald sem innheimt er fyrir komu til sérfræðings en TR greiðir það sem á vantar. Um 30 krossbandaaðgerðir voru gerðar á Læknastöðinni á síðasta ári. Talið er að árleg þörf hér á landi fyrir þessar aðgerðir sé á bilinu 60 til 70.
Nefnd til að kanna vaxandi skort á sjúkraliðum til starfa og gera tillögur til að mæta vandanum
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að meta ástæður fyrir vaxandi skorti á sjúkraliðum til starfa sem heilbrigðisstofnananir standa frammi fyrir nú og gera tillögur um hvernig bregðast skuli við vandanum. Nefndinni er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum í september 2002. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar tilnefndir af Sjúkraliðafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og landlæknisembættinu. Formaður nefndarinnar er Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
NEFNDIN...
Íslendingar styðja uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Malaví
Þróunarsamvinnustofnun Íslands er nú að byggja heilsugæslustöð og spítala í Malaví, búa stofnunina tækjum og búnaði og þjálfa starfsfólk. Upptökusvæði spítalans nær til héraðs með um 170 þús. íbúa þar sem aðeins var fyrir lítil heilsugæslustöð í mjög frumstæðu húsnæði sem verður lögð niður þegar nýja stofnunin verður tekin í notkun. Verkefnisstjóri uppbyggingarstarfsins er Halldór Jónsson, læknir og auk hans sér Hildur Sólveig Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, um að byggja upp heilbrigðisþjónustuna á svæðinu í samstarfi við heilbrigðisyfirvöldin í landinu. Nú er verið að hlaða 40 feta gám á lóð Landspítalans á Vífilsstöðum ýmsum búnaði s.s. sjúkrahúslíni, skoðunarbekkjum, barnarúmum, hjólastólum svo og einföldum tækjum svo sem svæfingavélum, hjartalínuriturum og fleiru sem eru í góðu lagi og koma að fullkomnum notum í Malaví. Þá hafa apótek Landspítalans og lyfjafyrirtækið DELTA gefið lyf til nota á nýju heilbrigðisstofnuninni í Malaví. Leitað var eftir því við Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, að ráðuneytið greiddi fyrir flutninginn á vörunum hina löngu leið til Malaví og varð ráðherra við þeirri beiðni.
MEIRA...
Umsóknir um starfsleyfi heilbrigðisstétta til útfyllingar á netinu
Eyðublöð vegna umsókna heilbrigðisstétta um starfsleyfi eru nú orðin aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins á formi sem gerir umsækjendum kleift að fylla þau út í tölvunni sinni. Eftir sem áður þurfa umsækjendur að prenta umsóknir sínar út og senda þær ráðuneytinu í pósti með viðeigandi stimplum og fylgiskjölum. Aðgangur er umsóknareyðublöðum er á heimasíðu ráðuneytisins í vinstri hliðarvalmynd undir tengingunni starfsleyfi.
Ráðstefna um stefnumörkun í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins
Upplýsingamál innan heilbrigðiskerfisins hafa tekið miklum stakkaskiptum á liðnum árum samhliða sívaxandi tölvutækni og aukinna möguleika á rafrænum gagnaflutningum og gagnasöfnun. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mótaði á árunum 1996 - 1998 stefnu sína í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins. Sú stefnumörkun er byggð á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um íslenska upplýsingasamfélagið. Forgangsverkefni á þessu sviði eru þrjú, þ.e. heilbrigðisnetið, rafrænar sjúkraskrár og fjarlækningar. Í ávarpi heilbrigðisráðherra á ráðstefnu um stefnumörkun í uppplýsingamálum heilbrigðiskerfisins var gerð grein fyrir þeirri vinnu sem nú fer fram innan ráðuneytisins varðandi þessi mál og helstu verkefni sem unnið er að. Í ávarpinu kom m.a. fram að í heilbrigðisráðuneytinu hafa verið tekin saman drög að áætlun um uppbyggingu fjarlækninga en þegar er unnið að fjölda verkefna á því sviði. Má þar nefna fjargreiningu röntgenmynda, geðlækningaþjónustu, sendingu sónarmynda, bráðalækningar, háls- nef- og eyrnaskoðanir, fjarmeinaskoðanir, speglanir og sendingu gagna, s.s. hjarta- og heilalínurita.
ÁVARP RÁÐHERRA...
Nýr upplýsingavefur um heimahjúkrun barna
Í vikunni var formlega opnuð heimasíða með upplýsingum um heimahjúkrun barna: http://www.heimahjukrunbarna.is. Heimahjúkrun barna er sérhæfð þjónusta fyrir veik börn og unglinga sem dvelja heima, ýmist tímabundin eða til lengri tíma. Hjúkrunin er veitt hvenær dags sem er, alla daga vikunnar, eftir þörfum barnsins og í samráði við fjölskylduna. Til að barn fái heimahjúkrun þarf skriflega beiðni læknis eða hjúkrunarfræðings. Kostnaður er að fullu greiddur af Tryggingastofnun ríkisins. Að heimahjúkrun barna standa hjúkrunarfræðingar með langa starfsreynslu á barnadeildum og með sérþekkingu á þörfum sjúkra barna.
HEIMAHJUKRUNBARNA.IS
Landlæknisembættið auglýsir styrk til rannsókna á meningókokkasjúkdómi
Landlæknisembættið hefur auglýst til umsóknar styrk til rannsókna á meningókokkasjúkdómi, meingerð, faraldsfræði, mögulegum erfðaþáttum, meðferð eða öðrum atriðum sem lúta að sjúkdómnum. Gert er ráð fyrir að styrkupphæð geti numið allt að einni milljón króna. Umsóknarfrestur er til 1. mars.
NÁNAR...
Inflúensan farin að herja á landsmenn
Sex tilfelli af inflúensu af A-stofni hafa greinst á verufræðideild Landspítala - háskólasjúkrahúss frá 30. janúar - 5. febrúar. Staðfest tilfelli eru öll á höfuðborgarsvæðinu. Inflúensan er óvenju seint á ferðinni að þessu sinni. Einkennin lýsa sér meðal annars með beinverkjum, höfuðverk, slappleika, hita og særindum í hálsi. Þeim sem veikjast er ráðlagt að halda sig heima uns heilsu er náð og fara vel með sig. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar greinast inflúensutilfelli í nágrannalöndum okkar og í Frakklandi og á Spáni ganga inflúensufaraldrar um þessar mundir.
8. febrúar 2002