Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2002 Matvælaráðuneytið

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra við opnun Carnegie-sýningarinnar

Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra
við opnun Carnegie-sýningarinnar 8. febrúar 2002



Góðir sýningargestir!

Mér er það mikil ánægja að eiga hlut að opnun Carnegie Art Award-sýningarinnar 2001 sem hér hefst í dag, en byrjaði sex landa hringferð sína um Norðurlönd og Bretland í ARKEN-listasafninu í Ishøj í Danmörku 4. nóvember sl. Þar voru verðlaun ársins 2001 veitt þremur listamönnum úr hópi sýnenda og styrkur ársins hinum fjórða, en að þessu sinni eru sýnendur 6 frá Finnlandi, jafn margir frá Svíþjóð, 5 frá Noregi, 4 frá Danmörku og einn frá Íslandi.

Í nútímaþjóðfélagi er um margt að velja og margt sem mótar líf okkar og keppir um athyglina. En hvort sem áhugi okkar á listum er meiri eða minni má fullyrða að listin skipti bæði fólk og fyrirtæki miklu máli, ekki aðeins á tyllidögum eða við tækifæri sem þetta, heldur í sjálfu amstri hversdagslífsins. Málaralist er nú fæstum framandi með öllu og málverk það listform sem flestir hafa fyrir augum á vinnustað, heimilum og þjónustustofnunum. Það hefur oft verið sagt um íslensk heimili að þau skarti fleiri frummyndum en gengur og gerist hjá þeim þjóðum sem við berum okkur oftast saman við. Áhugi á myndlist er mikill hér á landi og við Íslendingar höfum átt og eigum marga frábæra myndlistarmenn sem hafa skerpt sjón okkar, kennt okkur að njóta listar og glatt augað í gegnum árin. Því má með sanni gera ráð fyrir að margan fýsi að skoða verkin sem hér eru sýnd og hafa verið valin til að gefa hugmynd um norræna samtímalist í upphafi 21. aldar.

Carnegie Art Award er ekki bara myndir á farandsýningu, verðlaun og styrkir, heldur hefur einnig verið gefin út vönduð bók um sýninguna, til sölu á öllum sýningarstöðum. Til þessara árlegu verðlauna og viðburða í tengslum við þau var fyrst stofnað fyrir fjórum árum í því skyni að styðja norræna listamenn sem þykja skara fram úr og efla um leið og kynna norræna málaralist á líðandi stund. Vali er þannig háttað að 30 sérfræðingar í greininni, sem tilnefndir eru til eins árs í senn og sumir eru fulltrúar ákveðinna stofnana, benda hver um sig á fimm listamenn sem eru norrænir ríkisborgarar eða búsettir á Norðurlöndum. Sama mann má tilnefna á nýjan leik síðar þótt hann hafi verið tilefndur áður. Tilnefndum listamönnum býðst síðan að senda inn fimm verk hverjum, sem eiga að vera gerð á síðustu tveimur árum. Sex manna dómnefnd listfróðra sérfræðinga, sem venjulega er skipuð til þriggja ára og talið er æskilegast að Norðurlönd eigi öll fulltrúa í, velur síðan úr hópnum verk og listamenn til þátttöku í Carnegie Art Award hverju sinni. Sama dómnefnd ákveður hvaða sýnendur hljóta þá verðlaun og styrk.

2001 voru tilnefndir 119 listamenn, en einungis er skýrt frá nöfnum þeirra sem valdir eru úr að lokum og voru í þetta sinn 22.

Það er hið þekkta Carnegie-fyirtæki, sem kennt er við skoskan aðalsmann og á sér 200 ára sögu í sænsku og norrænu athafnalífi, sem gerðist frumkvöðull þessa sýningarhalds og alls sem því fylgir. Það var forðum frægast fyrir verslun og skipaútgerð, sykur og porteröl, en sneri sér síðar að bankarekstri og fésýslu og er nú norrænn fjárfestingarbanki í fremstu röð sem starfar í sjö löndum og hefur rúmlega 1000 starfsmenn.

En það lætur sér það ekki nægja. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, og oft er sagt að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal. Þetta öfluga norræna fyrirtæki hefur góð tengsl við Ísland. Undanfarin fjögur ár hefur Verðbréfastofan haft umboð fyrir það hér á landi og þótt fyrirtækið hafi enga starfsemi á Íslandi verðum við ekki útundan í sýningarhaldinu, enda birtist norræn samvinna í verki á þessari sýningu. Það er von Carnegie-bankans að Carnegie Art Award auki norræna samstöðu og sýni að list standi á háu stigi á Norðurlöndum og þar sé sköpunargáfa í heiðri höfð. Bankinn vill í senn leggja sitt af mörkum til að gera norræna málaralist aðgengilega öllu áhugafólki um listir og styðja og örva listamenn á Norðurlöndum.

Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að fá þessar sýningar hingað og jafnframt eru þær kjörinn vettvangur fyrir íslenska myndlistarmenn til þess að kynna verk sín erlendis.
Hlutur þeirra hefur líka verið mikill á sýningunum, þótt aðeins einn þeirra hlyti náð fyrir augum sýningarstjórnarinnar núna. Á undanförnum árum hafa þeir verið tveir til fjórir.

Samþætting viðskipta og menningar fer nú mjög í vöxt hjá fyrirtækjum sem stuðla vilja að sífellt öflugra og betra menningarlífi. Frumkvæði Carnegie-bankans á þessu sviði er
þakkar- og lofsvert, enda ekkert til sparað að gera sýninguna og umgjörð hennar sem glæsilegasta. Því bera að fagna og á komandi hausti fer verðlaunaafhendingin fram á Íslandi í fyrsta skipti.

Öll vitum við að listin er afstæð og háð smekk hvers og eins; það sem hrífur einn lætur annan ósnortinn. En eitt er víst - listin vekur alltaf forvitni. Þess vegna skulum við ekki draga það lengur að litast betur um í sýningarsölunum.

Ég lýsi því yfir að sýningin Carnegie Art Award 2001 er opnuð!


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta