Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2002 Matvælaráðuneytið

Rannsóknir í þágu efnahagslegra framfara

Reykjavík
13. febrúar 2002

Rannsóknir í þágu efnahagslegra framfara
Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra

I.
Ágætu fundarmenn.
Ástæða þess að við í iðnaðarráðuneytinu ákváðum að boða til þessa fundar er sú að okkur fannst skorta á að almennur skilningur væri á því grundvallaratriði að rannsóknir og vísindaleg þekking eru undirstaða efnahagslegra og félagslegra framfara í þjófélaginu. Þetta á jafnt við um grunnrannsóknir, sem hafa þekkingarleit að markmiði og hagnýtar rannsóknir, sem hafa efnahagslegan ávinning að leiðarljósi. Tilgangur þessa fundar er að hvetja til umræðu um mikilvægi rannsókna fyrir farsæla þróun þjóðfélagsins á komandi árum.

Þessi fundartími varð fyrir valinu vegna þess að nú liggja fyrir grunngögn sem umræðurnar geta byggst á með mun markvissari hætti en verið hefur. Hér er um eftirfarandi gögn að ræða:

1. Ritið: Megináherslur iðnaðar- og viðskiptaráherra fyrir 2001-2003, sem kom út í mars á síðasta ári.
2. Ritið: Hlutverk rannsóknarstofnana iðnaðarráðuneytis í eflingu rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar, sem kom út sl. haust.
3. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005.
5. Frumvörp til laga um nýskipan vísinda og tækniþróunar.

Þessi grunngögn tengjast á þann hátt að rauði þráðurinn í þeim öllum lýtur að nýsköpun atvinnulífsins og efnahagslegri velferð þjóðarinnar.
II.
Ef við lítum fyrst á þær megináherslur sem ég hef sett fram um starfsemi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins þá ber þar hæst fjögur markmið:

1. Markmið: Að auka fjölbreytni og bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins.
2. Markmið: Að treysta búsetu á landsbyggðinni.
3. Markmið: Að auka nýtingu innlendra orkugjafa.
4. Markmið: Að efla samkeppni og neytendavernd.

Fjölmargar leiðir hafa verið skilgreindar að þessum markmiðum og höfum við verið að feta okkur eftir þeim síðustu mánuðina. Það sem einkennir þær öðru frekar er að hafa að leiðarljósi hagnýtingu vísindalegrar og tæknilegrar þekkingar til að efla atvinnulífið.
III.
Í ritinu Hlutverk rannsóknastofnana iðnaðarráðuneytisins í eflingu rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar, hefur ráðuneytið lagst undir feld með rannsóknarstofnunum sínum, til að skilgreina framtíðarsýn um hvernig þær geta lagt sitt af mörkum í þágu efnahagslegra framfara.

Iðntæknistofnun, Orkustofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gegna lykilhlutverki hver á sínu, sviði og má ljóst vera að þessar rannsóknarstofnanir hafa veigamiklu hlutverki að gegna í styrkingu þjóðarhags komandi ára. Sama gildir að sjálfsögðu um fjölmargar aðrar opinberar vísinda- og rannsóknarstofnanir þótt þeim verði ekki gerð skil hér.

Iðntæknistofnun hefur gegnt veigamiklu hlutverki í rannsóknum fyrir íslenskan iðnað á fjölmörgum fagsviðum. Hlutverk stofnunarinnar hefur þróast í áranna rás í takt við breyttar þjóðfélagsaðstæður og er vaxandi þjónusta stofnunarinnar við frumkvöðla og sprotafyrirtæki, til dæmis um það.

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins þjónar sérhæfðara fagsviði en Iðntæknistofnun, en hagsmunirnir eru ekki minni, þar sem stór hluti af fjárfestingum okkar er bundinn í húsnæði og öðrum mannvirkjum. Lausn stofnunarinnar á alkalívandanum er sennilega það einstaka rannsóknarverkefni hérlendis, sem skilað hefur mestum ávinningi fyrir þjóðfélagið.

Orkustofnun fæst við rannsóknir á orkulindunum, bæði jarðhitaorku og vatnsorku. Efnahagslegur ávinningur þessara rannsókna er óumdeildur enda hefur hagnýting orkulindanna, og iðnaður sem risið hefur upp í tengslum við hana, staðið undir stórum hluta hagvaxtarins á síðustu áratugum.
IV.
Þriðja grunnskjalið sem ég vil gera að umfjöllunarefni hér er tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005. Tillagan, sem var afgreidd úr ríkisstjórn sl. föstudag, er viðamikið plagg og tekur til fjölmargra þátta sem snerta fjölmörg ráðuneyti og flesta þætti stjórnsýslunnar. Meginmarkmið þingsályktunartillögunnar eru fimm. Þau eru eftirfarandi - í nokkuð stytti útgáfu:

1. Markmið: Draga úr mismun í lífskjörum og afkomumöguleikum á milli byggðarlaga.
2. Markmið: Efla sveitarfélögin, styðja við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.
3. Markmið: Efla fjölmennustu og kröftugustu byggðalögin, sem m.a. hafa mestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs ofl.
4. Markmið: Auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga þjóðlífið og skapa fjölbreyttari kosti í búsetu og lífsstíl.
5. Markmið: Stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.

Ljós er að hér er mikil áhersla lögð á ný sóknarfæri til atvinnusköpunar á landsbyggðinni. Slík sókn, mun að verulegu leyti, þurfa að byggja á nýjum atvinnugreinum, sem gætu orðið til á grunni hinna hefðbundnu greina sjávarútvegi og landbúnaði. Hér má nefna sem dæmi sjávarlíftækni og plöntulíftækni sem eru áhugaverðir vaxtarbroddar í atvinnulífinu og byggja á nýrri vísindalegri þekkingu og markvissum rannsóknum.
V.
Fjórði þátturinn í þeirri mynd sem ég vil draga hér upp, eru þrjú samstæð frumvörp er fjalla um nýskipan vísinda og tækniþróunar. Þessi frumvörp, sem einnig voru afgreidd í ríkisstjórninn sl. föstudag, eru:

1. Frumvarp til laga um Vísinda og tækniráð, sem lagt er fram af forsætisráðherra.
2. Frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem lagt er fram af menntamálaráðherra.
3. Frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem lagt er fram af iðnaðarráðherra.

Þessi fumvörp mynda eina heild þar sem áherslur í rannsóknum fá aukið vægi í pólitískri stefnumótun og verða tengdar stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hverju sinni. Hér er um gríðarmikilvæga breytingu að ræða sem ég bind miklar vonir við. Um þessa nýskipan verður fjallað sérstaklega hér á eftir.
VI.
Ágætu fundarmenn.
Ég hef í þessum inngangsorðum mínum reynt að draga upp grófa mynd af því umhverfi vísinda og rannsókna sem snýr að iðnaðarráðuneytinu. Við okkur blasir sú augljósa staðreynd að íslenskt atvinnulíf þarfnast aukinnar fjölbreytni og hagkvæmari nýtingar náttúruauðlindanna. Auka þarf framleiðni atvinnulífsins og bæta samkeppnisstöðu okkar á hinum alþjóðlega markaði.

Ég reikna með að við getum verið sammála um, að það verður ekki gert án þess að efla rannsóknir og hagnýtingu vísindalegrar þekkingar.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta