Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Nýjar reglur um sjúkraþjálfun vegna deilna við sjúkraþjálfara - Reglurnar sjálfar

R E G L U R
um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga Tryggingastofnunar ríkisins í þjálfun


I. kafli
Greiðslur Tryggingastofnunar fyrir umsamda þjálfun

1. gr.
Greiðslur Tryggingastofnunar vegna sjúkratryggðra einstaklinga

Tryggingastofnun greiðir 75% þjálfunarkostnaðar fyrstu 15 skiptin á ári fyrir sjúkratryggð börn og unglinga yngri en 18 ára, einstaklinga með umönnunarkort, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Þjálfunin skal fara fram á stofu þjálfara, sem starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári greiðir Tryggingastofnun þjálfunina að fullu út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
Tryggingastofnun greiðir 50% þjálfunarkostnaðarins fyrstu 24 skiptin á ári fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga en eftir það 75% kostnaðarins út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Þjálfunin skal fara fram á stofu þjálfara, sem starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun.
Ef samið er um hærri greiðslur fyrir tilskilda hópa/meðferð greiðir Tryggingastofnun að fullu það sem er umfram almennt meðferðargjald sjúklings.
Tilskilinn skiptafjöldi einstaklings til aukinnar hlutdeildar Tryggingastofnunar skal staðfestur með útgáfu skírteinis (þjálfunarkorts) sem sækja þarf um til Tryggingastofnunar. Miðað er við samanlagðan skiptafjölda sjúkratryggðs á ári í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, sem Tryggingastofnun hefur gert samninga um.

2. gr.
Heimasjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfari sem starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun þarf að sækja fyrirfram um þátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði við heimasjúkraþjálfun. Tryggingastofnun greiðir í þessum tilfellum viðbótarstyrk þannig að sjúklingur greiði sama gjald fyrir heimasjúkraþjálfun og vegna sjúkraþjálfunar á stofu. Tryggingayfirlækni er þó heimilt að samþykkja að Tryggingastofnun greiði að fullu heimasjúkraþjálfun ef um mjög alvarlegt sjúkdómsástand (t.d. krabbamein eða sjúkdóm Parkinsons á lokastigi) eða mjög alvarlega fötlun er að ræða.

3. gr.
Hópþjálfun

Hver tvö skipti í hópþjálfun hjá þjálfara sem starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun teljast svara til eins skiptis í annarri sjúkraþjálfun við útgáfu þjálfunarkorts.

4. gr.
Þjálfun á göngudeildum opinberra sjúkrastofnana

Greiðslukvittanir þar sem fram kemur staðfesting á skiptafjölda í viðurkenndri iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og talmeinaþjónustu sem veitt er á göngudeildum opinberra sjúkrastofnana geta nýst til öflunar skírteinis fyrir þjálfun (þjálfunarkorts) enda séu greiðslufjárhæðir svipaðar og gildir um sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, sem Tryggingastofnun hefur gert samninga um.

II. kafli

Styrkir Tryggingastofnunar vegna kostnaðar við þjálfun
hjá sjúkraþjálfurum sem ekki starfa samkvæmt samningi við Tryggingastofnun


5. gr.
Greiðslur Tryggingastofnunar vegna sjúkratryggðra einstaklinga

Sjúkratryggðir einstaklingar með umönnunarkort eiga rétt á styrk vegna þjálfunar á stofu hjá löggiltum, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem ekki starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun. Styrkurinn er að fjárhæð kr. 2.256 vegna hvers þjálfunarskiptis. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 2.820 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Styrkurinn er veittur vegna allt að 20 skipta á hverju 12 mánaða tímabili, sbr. þó 3. mgr.
Örorkulífeyrisþegar eiga rétt á styrk vegna þjálfunar á stofu hjá löggiltum, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem ekki starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun. Styrkurinn er að fjárhæð kr. 1.692 vegna hvers þjálfunarskiptis. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 2.256 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Styrkurinn er veittur vegna allt að 20 skipta á hverju 12 mánaða tímabili, sbr. þó 3. mgr.
Aðrir sjúkratryggðir sem nauðsynlega þurfa á sjúkraþjálfun að halda vegna afleiðinga alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa geta sótt um styrk til Tryggingastofnunar vegna kostnaðar við þjálfun á stofu hjá löggiltum, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem ekki starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun. Hið sama gildir um örorkulífeyrisþega og einstaklinga með umönnunarkort sem nauðsynlega þurfa sjúkraþjálfun umfram 20 skipti. Tryggingastofnun tekur í þessum tilvikum þátt í að greiða sjúkraþjálfun, enda valdi sjúkdómsástandið verulegri skerðingu á færni til athafna daglegs lífs, göngugetu eða vinnufærni. Slík sjúkraþjálfun þarf samkvæmt niðurstöðum vísindalegra rannsókna og reynslu að vera líkleg til að bæta færnina verulega. Með umsókn um styrk skal fylgja vottorð læknis (beiðni um þjálfun). Ef styrkur er samþykktur skal fjöldi þjálfunarskipta koma fram í ákvörðun TR.
Ef styrkur er samþykktur greiðir Tryggingastofnun sem hér segir vegna hvers þjálfunarskiptis á stofu, sbr. einnig 1. og 2. mgr. þegar um örorkulífeyrisþega og einstaklinga með umönnunarkort er að ræða:
        a) Fyrir ellilífeyrisþega og unglinga frá 13 til og með 17 ára kr. 1.692. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 2.256 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
        b) Fyrir börn yngri en 12 ára kr. 2.256. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 2.820 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
        c) Fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga kr. 1.128. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 24 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 1.692 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
Tryggingastofnun veitir styrk vegna heimaþjálfunar löggilts, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem ekki starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun þegar um er að ræða afleiðingar alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa. Skilyrði er að ekki sé unnt að veita meðferð á stofu sjúkraþjálfara af læknisfræðilegum ástæðum. Ætíð skal sækja fyrirfram til Tryggingastofnunar um styrk vegna heimaþjálfunar. Með umsókn um styrk skal fylgja vottorð læknis (beiðni um þjálfun). Ef styrkur til heimaþjálfunar er samþykktur skal fjöldi þjálfunarskipta koma fram í ákvörðun TR. Styrkurinn er þá kr. 3.384 vegna hvers þjálfunarskiptis. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 24 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 3.948 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Fyrir börn, ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og einstaklinga með umönnunarkort er styrkur Tryggingastofnunar fyrir heimameðferð þó kr. 3.948 vegna hvers þjálfunarskiptis og ef þau verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 4.512 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti. Tryggingayfirlækni er þó heimilt að samþykkja að styrkur Tryggingastofnunar til sjúkratryggðs einstaklings verði frá fyrsta þjálfunarskipti kr. 4.512 ef um mjög alvarlegt sjúkdómsástand (t.d. krabbamein eða sjúkdóm Parkinsons á lokastigi) eða mjög alvarlega fötlun er að ræða.
Með þjálfunarskipti er átt við meðferð sem tekur um 40-60 mínútur og getur hún verið fólgin í einum eða fleirum eftirgreindra liða: Færniþjálfun og æfingum, vöðvateygjum, togi og liðlosun, hita og kælingu, meðferð í vatni, nuddi, rafmagnsmeðferð, ráðgjöf og fræðslu, skoðun og prófunum og sogæðanuddi.

6. gr.
Hópþjálfun

Styrkveitingar Tryggingastofnunar vegna hópþjálfunar á stofu hjá löggiltum, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, sem ekki starfar samkvæmt samningi við Tryggingastofnun, eru sem hér segir:
        a) Fyrir ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega, einstaklinga með umönnunarkort og börn yngri en 18 ára kr. 778. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 15 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr.1.038 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
        b) Fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga kr. 519. Ef þjálfunarskipti verða fleiri en 24 á einu ári hækkar styrkur Tryggingastofnunar í kr. 778 út árið, þ.e. í 365 daga talið frá fyrsta þjálfunarskipti.
Að öðru leyti lúta þessir styrkir sömu skilyrðum og fram koma í 5. gr. Hver tvö skipti í hópþjálfun teljast þó svara til eins skiptis í annarri sjúkraþjálfun við veitingu hærri styrks vegna skiptafjölda sbr. 5. gr.

7. gr.
Reikningar

Sjúklingur sem greitt hefur fyrir meðferð hjá löggiltum, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara að fullu fær endurgreiðslu hjá Tryggingastofnun að uppfylltum framangreindum skilyrðum. Á reikningi sjúkraþjálfara skal m.a. tekið fram nafn, kennitala og heimili sjúkratryggðs, hvaða dag meðferð fór fram og hvað var gert, auk fjárhæðar. Enn fremur skal koma fram hvar þjónustan var veitt. Sjúkratryggður skal staðfesta reikning með undirskrift sinni.

8. gr.
Önnur þjálfun

Greiðslukvittun þar sem fram kemur staðfesting á skiptafjölda í umsaminni iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og talmeinaþjónustu getur nýst til þess að fá hærri styrk vegna skiptafjölda, sbr. 5. gr. Hið sama gildir um viðurkennda iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og talmeinaþjónustu sem veitt er á göngudeildum opinberra sjúkrastofnana enda séu greiðslufjárhæðir svipaðar og gildir um sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun, sem Tryggingastofnun hefur gert samninga um.

9. gr.
Gildistaka

Reglur þessar eru settar af tryggingaráði skv. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 33 gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 og gilda frá 1. mars 2002. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 990/2000

Tryggingastofnun ríkisins, 13. febrúar 2002


Bolli Héðinsson


____________________________
Karl Steinar Guðnason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta