Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda í Osló
Nr. 008
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríksráðherra Norðurlanda í Osló.
Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir m.a. um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, ástandið í Afganistan, fyrir botni Miðjarðarhafs og á Balkanskaga. Þá ræddu þeir um öryggismál, þ.m.t. stækkun Atlantshafsbandalagsins og aukin tengsl þess við Rússland og um málefni Evrópubandalagsins og evrópska efnahagssvæðisins.
Ráðherrarnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu um aðstoð við og uppbyggingu í Afganistan og gáfu út sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi, sem fylgir hjálagt.
Í umfjöllun sinni um ESB-EES málefni ræddu ráðherrarnir einkum stækkun, þróun og framtíð Evrópusambandsins og aðlögun EES-samningsins að þeim breytingum. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu um það mál. Hann undirstrikaði mikilvægi aðlögunar EES-samningsins að breyttu Evrópusambandi og að stækkun þess mætti ekki leiða til versnandi viðskiptakjara fyrir íslenskan sjávarútveg.
Í umræðum um öryggismál lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi bættra samskipta við Rússland. Þá undirstrikaði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, að ryðja þyrfti úr vegi síðustu hindrunum fyrir samkomulagi milli ESB og Atlantshafsbandalagsins um varanleg starfstengsl stofnananna.
Ráðherrarnir voru sammála um að hinu hörmulega ástandi mála fyrir botni Miðjarðarhafs yrði að linna. Báðir aðilar verði strax að láta af ofbeldisverkum og setjast að samningaborði. Málið verði aðeins leyst með stofnun sjálfstæðs lýðræðisríkis Palestínumanna jafnframt því sem öryggi Ísraels verði tryggt. Í þessu sambandi lagði utanríkisráðherra Íslands áherslu á að sú stefna að einangra Yasser Arafat væri ekki leið til lausnar á deilunni. Ráðherrarnir ítrekuðu að virk þátttaka Bandaríkjamanna í friðarumleitunum á svæðinu væri grundvallarforsenda fyrir því að aðilar fengjust til að setjast á ný að samningaborðinu.
Yfirlýsing varðandi Afganistan af fundi utanríkisráðherra Norðurlanda (Word-skjal - 20,4 Kb)
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. febrúar 2002