Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Samið um sjúkraflutninga fyrir milljarð - feb-2002

Samið um sjúkraflutninga fyrir milljarð
- samningur til fjögurra ára undirritaður í Ráðhúsinu



Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjórinn í Reykjavík, undirrituðu í morgun [22. febrúar] nýjan samning um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu fyrir hönd heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Samningurinn felur í sér að ríkið greiðir Slökkviliði höfuðuborgarsvæðisins 255 milljónir króna á ári á samningstímanum til að standa straum af kostnaði við launagreiðslur starfsmanna, vinnufatnað, endurmenntun þeirra og annan kostnað sem til fellur vegna sjúkraflutninganna. Rauði kross Íslands á allar sjúkrabifreiðar á landinu samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og greiðir ráðuneytið RKÍ um 55 milljónir árlega vegna sjálfra bílanna.

Sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um fimmtung á liðnum fjórum árum, eða um 3.000 frá árinu 1998. Í samningnum er gengið út frá um 20 þúsund sjúkraflutningum á ári. Til að sinna þeim hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins níu sjúkrabifreiðar til umráða.

Samkvæmt samningnum sem undirritaður var í morgun sér Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, hann er til fjögurra ára og gildir frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2005. Innifalið í sjúkraflutningum er flutningur til flugvalla og þyrlupalla á þjónustusvæðinu og frá þeim, auk sjúkraflutninga út fyrir þjónustusvæðið þegar beiðni berst um slíkan flutning. Þjónustusvæðið er höfuðborgarsvæðið og er hér átt við Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Seltjarnarnes, Bessastaðahrepp, Mosfellsbæ, Kjalarnes, Kjósarsýslu og Bláfjallasvæðið. Sjúkraflutningar eru skilgreindir eftir tegundum sjúkraflutninga og flokkaðir eftir forgangi. Ef um alvarlegt slys eða bráðatilfelli er að ræða er strax kölluð út sjúkrabifreið ásamt sérstakri bifreið með lækni í forgangsakstri.


Reykjavík
21. febrúar 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta