-Nýir vikulegir fréttapistlar - 16. - 22. febrúar 2002 - MEIRA
Nýtt húsnæði heilsugæslunnar í Grafarvogi tekið í notkun
Húsnæði heilsugæslunnar er leiguhúsnæði og er leigt til langs tíma, en ákveðið var að nýta kosti einkaframkvæmdar við húsnæðisþátt rekstrarins. Að undangenginni nákvæmri hönnunar-og verðskoðun var ákveðið að gera samning við Þyrpingu h.f. um leigu á 1500 fermetra sérhannaðs húsnæðis fyrir heilsugæslustöð í Spönginni. Samningurinn var undiritaður af forstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, 13. apríl 2000, og staðfestur af Ingibjörgu Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðismálaráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra.
Öll uppbygging heilsugæslustöðvarinnar og innra skipulag byggist á áralangri undirbúnings- og hönnunarvinnu af hálfu starfsmanna heilsugæslunnar með aðstoð arkitekta. Sú hugmyndavinna skilaði ýmsum nýjungum og nýbreytni í skipulagi sem fyrirsjáanlegt er að mun hafa áhrif á uppbyggingu sambærilegra stöðva til framtíðar. Á neðri hæð hússins er sjúklingamóttakan á um 1100 fermetrum í tveimur álmum og er teymiseiningum lækna og hjúkrunarfræðinga skipt jafnt á milli ganga. Móttaka er stór og björt og starfsaðstaða eins og best verður á kosið.
Heilsugæslan í Grafarvogi tók í upphafi starfsemi sinnar í notkun 300 fermetra leiguhúsnæði til bráðabirgða að Hverafold í lok maí 1992 Þá bjuggu rúmlega 6000 manns á svæðinu. Var í fyrstu gert ráð fyrir tveimur læknum á stöðinni, en vegna örrar fjölgunar íbúa þá var húsnæðið stækkað í tæpa 400 fermetra hálfu þriðja ári síðar og læknum fjölgað í þrjá. Árið 1997 var enn bætt við lækni, en um áramótin 1995/1996 var starfsfólki stöðvarinnar orðið ljóst að stíga þurfti stórt skref til framtíðaruppbyggingar heilsugæslunnar þar sem íbúum Grafarvogs fjölgaði hratt og möguleikar til að stækka bráðabirgðahúsnæðið fullnýttir. Niðurstaðan var að stíga yrði stórt skref í húsnæðismálum og er einmitt verið að taka það skref nú með því að nýja húsnæðið er tekið í notkun. Í dag búa rúmlega 18 þús manns í Grafarvogi og allt útlit fyrir að þeim fjölgi áfram hratt í hverfinu