Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

16. - 22. febrúar 2002

Fréttapistill vikunnar
16. - 22. febrúar 2002



Lyfjanotkun landsmanna í skilgreindum dagskömmtun hefur aukist um 57% á tíu árum

Lyfjakostnaður hækkar stöðugt og lyfjanotkun landsmanna fer sívaxandi samkvæmt sölutölum frá lyfjaheildsölum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og landlæknir hafa tekið saman upplýsingar um lyfjasölu á árunum 1991 - 2001. Tölur eru umreiknaðar miðað við ársmeðaltöl vísitölu neysluverðs til að fá raunhæfan samanburð milli ára. Verðmæti seldra lyfja miðað við hámarksverð frá apótekum var 6.225 milljarðar króna árið 1991 en 12.976 milljarðar króna árið 2001. Aukningin nemur 108%. Á sama tímabili hefur lyfjanotkun landsmanna, mæld í skilgreindum dagskömmtum, aukist um 57% eða úr 658 skammta á hverja þúsund íbúa árið 1991 í 1.035 dagskammta á hverja þúsund íbúa árið 2001. Veruleg aukning hefur orðið á notkun æxlishemjandi lyfja á tímabilinu, en notkun þeirra mæld í dagskömmtum á 1000 íbúa hefur sexfaldast. Notkun tauga- og geðlyfja hefur einnig aukist verulega, úr 126 dagskömmtum 1991 í 256 dagskammta árið 2002. Sömuleiðis hefur notkun hjarta- og æðasjúkdómalyfja aukist mikið, úr 141 dagskammti árið 1991 í 259 dagskammta árið 2001. Notkun öndunarfæralyfja hefur einnig aukist mikið. Aftur á móti hefur notkun meltingarfæra- og efnaskiptalyfja minnkað úr 136 dagskömmtum árið 1991 í 101 dagskammt árið 2001. Ástæður fyrir aukinni notkun lyfja geta ýmsar verið, t.d. hafa komið á markað ný lyf og í einhverjum tilvikum hefur greining sjúkdóma batnað og meðferð aukist að sama skapi. Þetta á sérstaklega við um æxlishemjandi lyf þar sem töluvert er af nýjum lyfjum.
LYFJANOTKUN OG LYFSALA - TÖFLUR OG SÚLURIT... (pdf. skjal)

Nýtt húsnæði heilsugæslunnar í Grafarvogi tekið í notkun
Heilsugæslan í Grafarvogi tók í dag (22. feb.) í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði í Spönginni 35 þegar Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, afhenti fulltrúum heilsugæslunnar stöðina formleg við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni. Hið nýja húsnæði heilsugæslunnar í Grafarvogi er sérhannað fyrir heilsugæslu, það er um 1500 fermetrar að stærð, glæsilegt í alla staði, og á tveimur hæðum þar sem móttaka sjúklinga er á neðri hæðinni. Nýja húsnæðið býður upp á stórbætta möguleika til að þjóna þeim 18 þúsund íbúum sem búa nú í Grafarvogi sem best, en þar geta minnst 10 heimilislæknar verið í vinnu samtímis, auk tveggja sérgreinalæknar sem geta haft þar aðstöðu samtímis jafnframt öðrum greinum heilsugæslu.
MEIRA...

"Uppbygging heilsugæslunnar er skynsamleg, rökrétt og besti kostur fyrir þá sem nýta sér hana..."
sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í ávarpi sínu við afhendingu nýs húsnæðis heilsugæslunnar í Grafarvogi í dag. "Þetta segi ég af því ég þekki heilsugæsluna af eigin raun, af því fjölmargar rannsóknir vísindamanna leiða þetta í ljós og af því reynsla manna víða um lönd kennir okkur af öflug grunnþjónusta tryggir best almennt heilsufar þjóða. Uppbygging heilsugæslunnar er líka skynsamleg fyrir okkur sem skattgreiðendur vegna þess að þjónusta heilsugæslunnar er í mjög mörgum tilvikum ódýrasti kosturinn fyrir einstaklinginn og samfélagið, þegar öllu er til skila haldið." Ráðherra sagðist ekki ganga þess dulinn að meðal heilsugæslulækna eru skipar skoðanir um hvernig byggja skuli upp þjónustuna. Einnig að meðal heilsugæslulækna gæti óánægju með laun. Ráðherra sagðist reiðubúinn að skoða allar þær hugmyndir sem orðið geta til þess að slá á óánægju manna með breyttu launafyrirkomulagi. Þá sagði hann að ef heilsugæslulæknar lýstu eindregnum vilja t.d. til að losna undan Kjaranefnd sæi hann ekkert athugavert við að kanna möguleika á því. Ráðherra vék einnig að deilum vegna nýlegra breytinga á reglugerðum um útgáfu vottorða og ítrekaði að þær breytingar eigi ekki að hafa áhrif á kjör lækna og sagðist vona að úrskurður Kjaranefndar á næstu dögum staðfesti það.
ÁVARP RÁÐHERRA...

Máli Félags íslenskra heimilislækna gegn TR vísað frá dómi
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá dómi máli Félags íslenskra heimilislækna gegn Tryggingastofnun ríkisins. Félagið krafðist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá árinu 1999 um að hafna samningsgerð við sérfræðinga í heimilislækningum yrði dæmd ógild.

Reglugerð um daggjöld á sjúkrastofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum og reglugerð um greiðsluþátttökunefnd
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið hver skuli vera daggjöld sjúkrastofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum fyrir árið 2002. Daggjöldin eru birt í reglugerð nr. 130/2002.. Þá hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfest reglugerð nr. 128/2002 um greiðsluþátttökunefnd. Reglugerðin er um starfsemi nefndar sem fjallar um greiðsluþátttöku almannatrygginga í nýjum lyfjum, sem veitt hefur verið markaðsleyfi hér á landi og innihalda virkt efni, sem ekki voru á markaði 1. júní 2000. Nefndin er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis, Landlæknis, læknadeildar Háskóla Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Fimmti maðurinn er skipaður af ráðherra án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Staða framkvæmdastjóra Vísindasiðanefndar laus til umsóknar
Vísindasiðanefnd hefur auglýst laust starf framkvæmdastjóra nefndarinnar. Helsta hlutverk Vísindasiðanefndar er að meta umsóknir um fyrirhugaðar rannsóknir á mönnum sem varða heilsu þeirra á einhvern hátt. Starf framkvæmdastjóra felst einkum í því að stýra skrifstofustarfi nefndarinnar, halda yfirlit um umsóknir og önnur erindi sem nefndinni berast, sjá um bréfaskriftir varðandi mat og afgreiðslu nefndarinnar á erindum og annast fjárreiður í samvinnu við formann nefndarinnar. Helstu kröfur til umsækjenda eru haldgóð menntun í siðfræði og/eða heilbrigðisvísindum eða önnur háskólamenntun sem nýst getur í þessu starfi. Krafist er góðrar íslensku- og enskukunnáttur, ásamt reynslu af stjórnunarstörfum og fjármálaumsjón. Umsóknarfrestur er til 15 mars n.k.
HEIMASÍÐA VÍSINDASIÐANEFNDAR...

Allri starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss á Vífilsstöðum hefur verið fundinn annar staður
Ákveðið hefur verið að húðlækningadeild LSH á Vífilsstöðum flytjist í húsnæði Landspítalans í Kópavogi en þar er aðstaða til að hafa dag- og göngudeild húðlækninga. Jafnframt þykir ljóst að starfsemi göngudeildar húð- og kynsjúkdóma sem nú er í Þverholti rúmist einnig í Kópavogi. Með þessu hefur allri starfsemi á Vífilsstöðum verið fundinn annar staður. Sú starfsemi sem enn er á Vífilsstöðum en verður flutt annað síðar er; almenn göngudeild fyrir ofnæmis- og lungnasjúklinga, göngudeild svefnrannsókna og súrefnisþjónusta.

Merkingum sjúklinga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi ábótavant
Könnun á vegum gæðadeildar LSH sem gerð var í desember sl. leiddi í ljós að aðeins tæpur helmingur sjúklinga á spítalanum var þá merktur með armbandi. Könnunin var gerð í kjölfar atviks síðastliðið haust þegar við lá að ómerktur sjúklingur fengi meðferð sem ætluð var öðrum. Framkvæmdastjórn sjúkrahússins hefur fjallað um niðurstöður könnunarinnar og telur brýnt að skráðar verði reglur sjúkrahússins um merkingar.
NÁNAR...





Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
22. febrúar 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta