Hoppa yfir valmynd
1. mars 2002 Heilbrigðisráðuneytið

23. febrúar - 1. mars 2002

Fréttapistill vikunnar
23. febrúar - 1. mars 2002


Heilbrigðisráðherra telur æskilegt að semja við klíníska sálfræðinga um meðferð á börnum

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði fyrirspurn á Alþingi í vikunni þar sem spurt var hvort hann hyggðist beita sér fyrir samningi við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, en Tryggingastofnun ríkisins hefur hingað til ekki gert samninga við sálfræðinga. Í svari ráðherra kom fram að með breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu í lok síðasta árs hafi möguleikar á að semja um störf sálfræðinga rýmkað. Hann sagðist þegar hafa rætt möguleikann á slíkum samningum við formann og fulltrúa sína í samninganefndinni og hefði hann einkum í huga að heimila samninga um meðferð á börnum sem hafa þörf fyrir meðferð klínískra sálfræðinga. Ráðherra lýsti því að hann teldi samninga af þessu tagi í samræmi við heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og lýsti því yfir að hann ætlaði að leita eftir auknum fjárlagaheimildum við komandi fjárlagagerð í þessu skyni.
MEIRA...

Dreifibréf tryggingayfirlæknis til lækna vegna nýrra reglna um sjúkraþjálfun
Tryggingayfirlæknir hefur sent dreifibréf til lækna vegna nýrra reglna um sjúkraþjálfun sem tóku gildi í dag, 1. mars. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar sögðu upp samningi sínum við Tryggingastofnun ríkisins um síðustu áramót. Ekki hafa tekist samningar milli sjúkraþjálfara og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fyrir nokkru slitu sjúkraþjálfarar samningaviðræðum. Þeir ákváðu jafnframt að starfa utan samnings og taka upp eigin gjaldskrá 1. mars. Í dreifibréfi tryggingayfirlæknis segir að þetta muni augljóslega leiða til aukinna útgjalda viðskiptavina þeirra og óskar Tryggingastofnun ríkisins eftir góðu samstarfi við lækna um hvernig megi koma fjárhagslega til móts við þá sem hafa mesta þörf fyrir sjúkraþjálfun.
MEIRA...

Málefni heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu rædd á Alþingi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vill leita heimilda til þess að opna eins skjótt og unnt er nýjar heilsugæslustöðvar í Heima- og Vogahverfi í Reykjavík, Salahverfi í Kópavogi og í Hafnarfirði, en á öllum þessum stöðum er mjög brýnt að bæta framboð á heilsugæsluþjónustu. Þetta kom fram í munnlegu svari ráðherrans við fyrirspurn á Alþingi um vanda heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
MEIRA...

Lyfjastofnun varar við ólöglegum fæðubótarefnum sem innihalda efedrín
Lyfjastofnun hefur sent frá sér viðvörun þar sem segir að borið hafi á ólöglegum innflutingi og notkun fæðubótarefna sem innihalda efedrín, sérstaklega í tengslum við líkamsrækt og megrun. Neysla efedríns getur haft alvarlegar afleiðingar í förn með sér, jafnvel í litlum skömmtum. Stofnunin bendir fólki á að athuga vel innihald þeirra fæðubótarefna sem það tekur inn. Innihaldslýsing er yfirleitt utan á glösunum og ef varan er sögð innihalda ephedrin, ephedra eða Ma Huang er um efedrín að ræða. Sérstaklega má nefna vöruna Ripped fuel með efedríni og einnig ákveðnar tegundir Herbalife sem fluttar hafa verið inn ólöglega. Lyfjastofnun vekur athygli á því að ekki er eingöngu verið að bjóða keppnisfólki þessa vöru, heldur einnig almenningi sem stundar líkamsræktarstöðvar, ekki síst unglingum. Efedrín er flokkað sem astmalyf og var áður fyrr töluvert notað sem slíkt vegna þess að það víkkar út lungnaberkjur og getur því auðveldað öndun. Þar sem lyfir hefur töluverðar aukaverkanir, t.d. á hjarta, hefur það nú í langflestum tilvikum vikið fyrir nýrri og sérhæfðari astmalyfjum.

Mikilvægum áfanga náð - Ályktun sviðsstjóra LSH um framtíðarskipulag og uppbyggingu sjúkrahússins
Sviðsstjórar lækninga- og hjúkrunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hafa samþykkt svohljóðandi ályktun til stjórnarnefndar sjúkrahússins og heilbrigðisyfirvalda: "Sviðsstjórar lækninga og hjúkrunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi telja að mikilvægum áfanga sé náð með framkomnu nefndaráliti starfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um framtíðarskipulag og uppbyggingu LSH. Nú er brýnt að þegar verði hafist handa við gerð fjármögnunar- og framkvæmdaáætlunar um uppbyggingu hins nýja sjúkrahúss neðan núverandi Hringbrautar og bent er á að fyrstu áfangar slíkrar uppbyggingar hljóti að verða þeir hlutar þar sem miðlæg þjónusta verður staðsett og því dýrasti hluti sjúkrahússins. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að koma starfsesmi sjúkrahússins undir eitt þak og að hiklaust verði unnið að því markmiði."

Breytt skipulag slysa- og bráðaþjónustu á LSH tekur gildi 1. mars
Breytt skipulag slysa- og bráðaþjónustu við Landspítala - háskólasjúkrahús sem tók gildi í dag felur m.a. í sér að núverandi vaktadagkerfi verður lagt niður. Slysa- og bráðadeild fyrir slasaða og bráðveika verður í Fossvogi þar sem opið er alla daga árið um kring. Þar fer fram greining og fyrsta meðhöndlun slasaðra og bráðveikra sjúklinga sem þangað leita. Við Hringbraut verður tilvísunarmóttaka lækna fyrir hjartveika og einnig fyrir sjúklinga með kviðverki sem þurfa á skurðlæknisþjónustu að halda. Nýtt og vel búið bráðaherbergi verður tekið í notkun við bráðamóttökunar við Hringbraut.
MEIRA...

Umtalsverður árangur hefur náðst með sameiningu sérgreina við LSH að mati heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heimsótti í dag Landspítala - háskólasjúkrahús en miklar skipulagsbreytingar urðu að veruleika á spítalanumí dag. Í ávarpi sem ráðherra hélt á gigtardeildinni í Fossvogi lét hann koma fram að hann væri þeirrar skoðunar að umtalsverður árangur hafi náðst í rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss á árunum 2000 til 2001 eftir sameiningu sérgreina, en rekstrarkostnaður hans var nær óbreyttur á þessum árum á föstu verðlagi. Þakkaði ráðherra starfsmönnum þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig almennt og sérstaklega vegna breytinganna. Sagðist hann vita að það hefði ekki gerst átakalaust, en að breytingar væru að sínum dómi oft nauðsynlegar og ættu að leiða til endurmats á skipulagi og vinnu. Sú sameining einstakra deilda og sérgreina sem þegar hefur átt sér stað hefur skilað áþreifanlegum árangri nú þegar. Fram kom af hálfu ráðherra að hann reiknaði með 400 milljóna króna samdrætti í rekstri, en þegar hefur verið gripið til uppsagna til að ná þessum markmiðum á árinu og hefur starfskjörum um 250 starfsmanna sömuleiðis verið breytt í þessu skyni. Ráðherra benti líka á að Landspítali - háskólasjúkrahús væri að auka þjónustuna sína á vissum sviðum og breyta forgangsröðun verkefna. Eins og fram hefur komið hefur spítalinn fengið sérstaka fjárveitingu til að fjölga liðskipta- og bakflæðisaðgerðum, en færð hafa verið fram rök fyrir að einmitt þessar aðgerðir gagnist einstaklingum og samfélagi hvað best. Þunginn af sameiningu sérgreina spítalans var á sl. ári og einkum á þessu ári. Ljóst er að á þeim tíma mun hvoru tveggja gerast; hagræðing næst en kostnaður verður einnig nokkur. Það er sameiginlegur skilningur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og stjórnenda LSH að fylgjast náið með þróun þessara þátta og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar og ef þess gerist þörf.

Landssöfnun Geðhjálpar; Ný meðferð - Ný störf fyrir geðsjúka
Nú stendur yfir landssöfnun Geðhjálpar og nær söfnunin hámarki á morgun, laugardag, en þá verður gengið með söfnunarbauka í hús um allt land og óskað eftir stuðningi landsmanna. Slagorð söfnunarinnar eru; Ný meðferð - Ný störf fyrir geðsjúka. Geðrækt ætlar að taka þátt í að efla og móta ný og breytt meðferðarúrræði og er stefnan sú að fjölga valkostum með áherslu m.a. á endurhæfingu, stuðningi eða eftirfylgni, forvarnir, fjölskyldumeðferð og sjálfshjálp. Einnig er stefnt að því að verja fé sem safnast til að skapa arðbær störf sem með góðu móti er hægt að laga að þörfum og getu fólks með geðsjúkdóma þar sem samfélagsleg nauðsyn á virkni og hlutverki einstaklingsins er höfð að leiðarljósi.
MEIRA...

Heilsan í brennidepli - átak landlæknisembættisins til að hvetja fólk til heilbrigðs lífs
Landlæknisembættið er um þessar mundir að úta úr vör skipulagðri fræðsluherferð í fjölmiðlum til að vekja athygli á ýmsum efnum sem lúta að almennri eflingu heilsunnar og hvernig fólk getur bætt andlega og líkamlega heilsu sína með réttum lifnaðarháttum. Samstarf hefur tekist við Ríkisútvarpið um verkefnið og verður heilsan í brennidepli í Morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudögum og í þættinum Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 á föstudögum. Einnig verða vikulega birtar fræðslugreinar í Morgunblaðinu.
MEIRA...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
1. mars 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta