Fréttapistill vikunnar 2. - 8. mars 2002
Fréttapistill vikunnar
2. - 8. mars 2002
Tillögur nefndar um forvarnir og viðbrögð við ofbeldi gagnvart starfsfólki meðferðar- og heilbrigðisstofnana
Auka þarf fræðslu til starfsfólks heilbrigðisstofnana um ofbeldi, hvernig eigi að bregðast við því og leiðir til að koma í veg fyrir það. Einnig þarf að bæta skráningu heilbrigðisstofnana á tilfellum þar sem starfsfólk verður fyrir ofbeldi. Endurskoða þarf lög og reglugerðir til að bæta réttarstöðu starfsfólks sem verður fyrir ofbeldi en eins og staðan er nú er hún í engu frábrugðin réttarstöðu hins almenna borgara. Þetta er meðal niðurstaðna nefndar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði og falið var að leggja fram tillögur um leiðir til að bregðast við ofbeldi gegn starfsfólki meðferðar- og heilbrigðisstofnana. Tillögur nefndarinnar taka til reglna stofnana um forvarnir, þjálfun og leiðbeiningar til að forðast og mæta ofbeldisógn og ofbeldi, um skráningu og tilkynningar og stuðning við starfsfólk. Nefndin aflaði upplýsinga víða, m.a. hjá stéttarfélögum heilbrigðisstétta, Fangelsismálastofnun, starfsmannaskrifstofum sjúkrahúsanna í Reykjavík og hjá nokkrum hjúkrunarforstjórum. Einnig byggði nefndin vinnu sína á niðurstöðum könnunar á ofbeldi sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði árið 1996 fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Starfsmannafélag ríkisstofnana og Starfsmannafélagið Sókn. Í nefndinni áttu sæti Vilborg Ingólfsdóttir, Landlæknisembættinu, formaður nefndarinnar. Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna, LSH og Jóhannes Pálmason, yfirlögfræðingur, LSH.
Skýrslan: Ofbeldi gagnvart starfsfólki meðferðar- og heilbrigðisstofnana (769 KB)
"Hafna því að rekstrarformið skipti máli hér" sagði ráðherra í umræðu á Alþingi um útboð heilsugæslustöðvar í Salahverfi
Verði heilsugæslustöð boðin út í einu lagi, t.d. í Salahverfinu, mun heilbrigðisráðherra tryggja með samningi að þjónusta við almenning verði ekki síðri en á heilsugæslustöðvum sem reknar eru á hefðbundinn hátt á vegum Heilsugæslunnar í Reykjavík og sömuleiðis að gjöld fyrir þjónustuna verði ekki meiri né útgjöld skattgreiðenda hærri. Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í umræðum um málið utan dagskrár á Alþingi í dag. Ráðherra sagði að ef útboðsleiðin yrði farin væri bæða sjálfsagt og fullkomlega eðlilegt að Heilsugæslunni í Reykjavík yrði falin framkvæmdin, enda stefna, áherslur og kröfur í samræmi við þá stefnu ráðuneytisins sem mörkuð hefur verið með uppbyggingu glæsilegra stöðva á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Ráðherra sagði einnig: "Sumir læknar hafa bundið saman biðlistana og rekstrarformið og fengið út úr því, að einkareksturinn eða einkavæðingin væri lausnarorðið. Með slíkri breytingu hyrfu biðlistarnir. Þeir sem hafa hæst um þetta tala aldrei um mánaðarlanga biðlista hjá einkastofunum. Ég hafna því að rekstrarformið skipti hér máli. Læknum fjölgar ekki með því að breyta rekstrarforminu og sömu menn vinna ekki fleiri læknisverk nema þá að þeir sem vinna verkin fái meira fyrir sinn snúð. Og hér erum við kannske komin að kjarna óánægju heilsugæslulæknanna, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu."
MEIRA...
Ellilífeyrisþegum fjölgar verulega á næstu áratugum
Hagstofa Íslands hefur birt nýjan framreikning á fjölda Íslendinga fyrir tímabilið 2003-2042. Samkvæmt honum verða Íslendingar orðnir 300.000 í lok árs 2007, 330.000 árið 2020 og rúmlega 360.000 árið 2040. Niðurstöður Hagstofunnar benda til þess að fólki á ellilífeyrisaldri, þ.e. 67 ára og eldri, muni fjölga mikið á næstu áratugum og verði 59.000 árið 2030 sem er um tvöfalt fleiri en tilheyra þessum hópi í dag. Í forsendum framreikningsins er gert ráð fyrir að meðalævilengd kynjanna hækki jafnt og þétt til ársins 2042. Ætlað er að í lok þess árs verði meðalævilengd kvenna 84,8 ár, og 82,1 ár hjá körlum. Meðalævilengd kvenna nú er 81,4 ár og meðalaldur karla er 77,6 ár. Samkvæmt þessu lengist meðalævilengd karla mun meira en kvenna á tímabilinu, eða um 4,5 ár á móti 3,4 árum hjá konum. Í framreikningunum er gert ráð fyrir að hver kona fæði að meðaltali 2,05 börn yfir ævina.
HAGSTOFA ÍSLANDS...
Dánartíðni hér á landi lækkar stöðugt og hefur aldrei verið jafnlág og nú
Hlutfall látinna af hverjum 1.000 íbúum hefur lækkað úr 7,0 árið 1991 í 6,0 árið 2001 og hefur dánartíðini aldrei verið jafnlág. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Árið 2001 dóu 11 börn á fyrsta ári og af þeim dóu 3 á fyrsta degi. Dánartíðni barna á fyrsta ári hefur lækkað verulega á síðasta áratug. Árið 1991 dóu 5,5 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum en árið 2001 var dánartíðnin komin niður í 2,7.
60 sjúklingar á LSH biðu eftir vist á hjúkrunarheimili í janúar
Sjúklingar sem biðu eftir útskrift af Landspítala - háskólasjúkrahúsi að lokinni nauðsynlegri þjónustu á bráðasjúkrahúsi voru 104 í janúarlok. Þetta kemur fram í Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir janúar 2002. Af þessum 104 voru 60 sem biðu eftir vist á hjúkrunarheimili. Þetta er veruleg fækkun frá október 2001 en þá biðu 96 sjúklingar eftir hjúkrunarrými. Í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með skýrslunni kemur fram að við opnun nýja hjúkrunarheimilisins Sóltúns í janúar hafi 50 sjúklingar flust þangað af LSH, en 90 hjúkrunarrými eru í Sóltúni. Tilkoma Sóltúns hefur létt verulega á LSH en engu að síður glímir sjúkrahúsið enn við það vandamál að geta ekki útskrifað sjúklinga sem lokið hafa meðferð.
Dagur endurhæfingar og aðalfundur Félags fagfólks um endurhæfingu
Föstudaginn 15. mars verður aðalfundur Félags fagfólks um endurhæfingu haldinn í Norræna húsinu. Að loknum aðalfundi verður haldið málþing tileinkað Degi endurhæfingar þar sem fjallað verður um endurhæfingu og er yfirskriftin Endurhæfing borgar sig - hver borgar. Umfjöllunarefni á málþinginu eru þessi: Stangast fagleg sjónarmið á við opinbera stefnu. - Áhrif vistunar á þjónustu og kostnaðarskiptingu. - Er þjónustustigið alltaf rétt? - Er kerfið réttlátt? Frummælendur eru Hjördís Jónsdóttir, lækningaforstjóri á Reykjalundi. Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Jón Sigurðsson, líffræðingur og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, alþingismaður. Fundarstjóri er Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og þróunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Aðalfundur Félags fagfólks um endurhæfingu hefst kl. 13:00 og málþingið strax að þeim fundi loknum, kl. 14:00.
8. mars 2002