Hoppa yfir valmynd
8. mars 2002 Matvælaráðuneytið

Samráðsfundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja

Fréttatilkynning vegna fundar með Færeyingum 7.-8. mars 2002.


Í framhaldi af samráðsfundi sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja, sem fram fór í Þórshöfn dagana 7.-8. janúar 2002, hittust ráðherrarnir aftur í Reykjavík 7.-8. mars sl. eins og ákveðið hafði verið á fundi þeirra í Þórshöfn. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra leiddi íslensku samráðsnefndina og Jörgen Niclasen sjávarútvegsráðherra þá færeysku.

Aðilar ákváðu að sami samningur skyldi gilda fyrir árið 2002 og gilti á árinu 2001. Þetta merkir að færeysk skip geta áfram veitt 5.600 tonn af botnfiski í íslenskri lögsögu árið 2002. Af þessum heildarkvóta verður þorskvótinn óbreyttur eða 1.200 tonn og lúðukvótinn 80 tonn á tímabilinu 1. júní - 31. ágúst.

Samþykkt var að framlengja samning um uppsjávarfiska. Íslensk skip hafa heimild til að veiða kolmunna í færeyskri lögsögu sem og 2000 tonn af haustgotssíld og 1.300 tonn af makríl. Færeysk skip hafa heimild til að veiða kolmunna í íslenskri lögsögu og 30.000 tonn af loðnu. Jafnframt er færeyskum skipum heimilt að veiða af grænlenska loðnukvótanum allt að 10.000 tonnum í íslenskri lögsögu.

Vegna ástands kolmunnastofnsins ákváðu aðilar að takmarka veiðar skipa sinna.

Færeyingar minntu á gildandi reglur um takmarkaðan skipafjölda á aðalveiðisvæðinu í færeyskri lögsögu.
Sjávarútvegsráðuneytið 8. mars 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta